Íbúafundur 12. des og pistill bæjarstjóra

  • Fréttir
  • 8. desember 2023

Sæl kæru Grindvíkingar, 

Það er búið að vera ótrúlegt að fylgjast með ykkur öllum við að finna úrræði í þessu ástandi sem við búum öll við. Þegar ég mætti í Tollhúsið einn morguninn í vikunni blasti við mér fallegur táknrænn stuðningur frá Reykjavíkurborg.  En starfsfólk borgarinnar hafði sett jólatré handa okkur fyrir framan innganginn í Tollhúsið skreytt skjaldarmerki Ungmennafélags Grindavíkur eins og þið sjáið á myndinni hér að ofan. Það er greinilegt að margir eru að hugsa til okkar og fyrir það erum við afar þakklát. 

Í ljósi þess að stuðningur, styrkir og allskyns sérstök úrræði hafa verið kynnt upp á síðkastið langaði mig að draga aðeins saman fyrir ykkur nokkra mikilvæga hluti og hvar upplýsingar er að finna, sem og segja ykkur frá fyrstu hendi fréttir frá þjónustumiðstöðinni í Tollhúsinu. 

Íbúafundur á þriðjudag 
Þriðjudaginn 12. desember kl 17.00 verður haldinn íbúafundur í anddyrinu á nýju Laugardalshöllinni. Dagskrá fundarins verður auglýst þegar nær dregur en þar gefst íbúum tækifæri til að bera fram spurningar. 


Heima í Grindavík 
Íbúar Grindavíkur mega eingöngu vera í Grindavík á milli klukkan 7.00  - 17.00 til að fara inn á heimili sín. Atvinnurekstur má vera í gangi til klukkan 21, sjá hér nánar.  
Hér er kort sem sýnir hversu margar fráveitulagnir hafa verið myndaðar, bláar lagnir eru í lagi og rauðar lagnir eru ekki í lagi. Eingöngu íbúar og fyrirtæki við götur merktar bláar á kortinu geta notað salerni, vaska, uppþvottavélar o.s.frv. Kalt vatn er á öllum bænum nema Austurveg 1- 24b, stefnt er á að kalt vatn komi á við þessa götu um helgina. 
Töluverðar skemmdir eru á ýmsum innviðum bæjarins og sprungur eru víða opnar. Unnið er að viðgerum á innviðum í jörðu og verið er að fylla í sprungur. Jafnvel þó íbúðarhús séu íbúðarhæf þarf að ráðast í töluverðar viðgerðir á ýmsum mannvirkjum bæjarins eins og t.d. skóla- og íþróttahúsnæði svo bærinn sé öruggur til búsetu. 

Sértækur húsnæðisstuðningur
Fyrr í vikunni samþykkti Alþingi frumvarp innviðaráðherra um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfaranna. Eins og fram kemur í frétt á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er stuðningum ætlað að létta undir með íbúum Grindavíkur sem hafa undanfarið þurft að leita sér að nýjum samastað. Lesa má frekar um stuðninginn hér.

Opnað hefur verið fyrir rafrænar umsóknir inn á island.is/grindavik og á heimasíðu HMS

Leigutorg
Í dag kl 14.00 opnaði leigutorg fyrir Grindvíkinga, þar sem hægt er að nálgast íbúðir sem sérstaklega eru á leigu fyrir íbúa sem voru með lögheimili í Grindavík fyrir 10. nóvember síðastliðinn og fyrr.  Hægt er að finna upplýsingar um leigutorgið á vef stjórnarráðsins en hægt er að sækja um íbúð á Ísland.is. 

Skólamál 
Skólaskylda fyrir grunnskólabörn frá Grindavík mun taka aftur gildi 4. janúar 2024. Þrátt fyrir að börnin séu nú á víð og dreif um landið er skólasókn grunnskólabarna frá Grindavík um 95%. Þar af sækir ríflega helmingur barnanna safnskóla Grunnskóla Grindavíkur sem er starfræktur á fjórum stöðum í Reykjavík. Boðið er upp á skólarútur fyrir börnin frá Suðurlandi, Suðurnesjum og nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur svo þau geti sótt safnskólana. 
Börnin sækja nú samtals 65 skóla í 28 sveitarfélögum um allt land. 

Ráðgjöf og stuðningur 
Ég vil einnig árétta og minna á að mikilvægt er að sækja í bjargráð ef vanlíðan og ótti sækir mikið á. Við þurfum að gæta að hvert öðru og standa þétt saman í gegnum hátíðirnar. 
Hér á island.is má finna góða punkta sem gætu hjálpað.

Félagsstarf 
Ég vil minna á að þjónustumiðstöðin okkar í Tollhúsinu er opin frá 10.00-17.00 alla virka daga. Þar er verið að undirbúa fyrir jólin og mun opnun yfir hátíðirnar verða kynnt fljótlega. 

Helstu fréttir þaðan eru:
•    Tæplega 100 manns nýta sér þjónustumiðstöðina á hverjum degi. 
•    Bókasafnið hefur opnað fyrir að hægt sé að skila bókum í Tollhúsinu á opnunartíma.
•    Eldri borgarar hittast í Tollhúsinu vikulega. Í kringum 30 til 40 manns hafa verið að mæta hverju sinni. 
•    Á sunnudag verður boðið upp á íþróttaskóla í Setbergsskóla í Hafnarfirði fyrir leikskóla börn úr Grindavík. Skólinn hefst klukkan 11:00 og er til 11:45. 
•    Sálrænn stuðning á vegum Rauða krossins er í boði alla virka daga í Tollhúsinu á milli 10.00 - 17.00. Hægt er koma við án þess að panta tíma.

Atvinnustarfsemi
Í gær, fimmtudaginn 7. desember, var haldinn súpufundur í Reykjanesbæ sem var fjölsóttur meðal atvinnurekenda í Grindavík. Þar var m.a. jarðvísindamaður frá Veðurstofu Íslands til svars auk þess sem fulltrúi frá Vinnumálastofnun fór yfir þætti sem snúa að launagreiðslum og öðru. Þetta er  annar fundurinn sem haldinn er eftir rýmingu fyrir atvinnurekendur. Á fyrri fundi komu upp margar spurninga er varða Grindarvíkurveginn og af hverju hann sé enn lokaður. Vegurinn varð fyrir miklu hnjaski í sterkustu jarðskjálftahrinunni og má í raun líkja honum við lélegan malarveg í dag. Einnig eru þar þungar vinnuvélar að störfum á degi hverjum við gerð varnargarða og því ekki æskilegt að beina almennri umferð þar í gegn enn sem komið er. 

Hér nefndi ég nokkra þætti sem snúa að okkar málum.  Mun fleiri upplýsingar má finna á vefsíðu okkar grindavik.is þar sem allar helstu fréttir koma inn. Ég minni líka á þjónustugáttina island.is. þar sem hægt er að finna leiðir til að sækja um hin ýmsu úrræði.

Með kærri kveðju og ósk um góða helgi   
Fannar


Deildu þessari frétt

AÐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 16. apríl 2025

Þurfum að fá heimild til að gista heima

Fréttir / 16. apríl 2025

„Við förum aftur heim“

Fréttir / 11. apríl 2025

Ný stuðningsúrræði fyrir Grindvíkinga

Fréttir / 4. apríl 2025

Gefðu von

Fréttir / 1. apríl 2025

Eldgos hafið rétt norður af Grindavík