Í síðustu viku tilkynnti ríkisstjórnin um framhald stuðningsaðgerða við fólk og fyrirtæki í Grindavík. Varðandi atvinnulíf kom fram að ekki yrði ráðist í uppkaup á atvinnuhúsnæði. Einnig að rekstrarstuðningi yrði hætt frá næstu mánaðamótum. Hann yrði greiddur vegna rekstrar í mars. Umsóknarfrestur vegna rekstrarstuðnings er til og með 30. júní 2025. Rekstraraðilar hafa því nokkurn tíma enn til að sækja um og notfæra sér rekstrarstuðning ef þeir eiga rétt á honum.
Varðandi áframhaldandi stuðning tilkynnti ríkisstjórnin að nú væri horft til að nýta almennari úrræði um opinberan stuðning og skyldi það gert í gegnum sóknaráætlun Suðurnesja. Nú er unnið að nánari útfærslu þessa í starfshópi sem í eru fulltrúi Byggðastofnunar, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Grindavíkurbæjar. Fyrsta skref verður að veita rekstrar- og fjármálaráðgjöf þar sem staða viðkomandi fyrirtækis er greind og metið hvaða úrræði munu helst henta því. Í kjölfarið verður aðstoð við að sækja um stuðning sem kann að vera í boði. Ætlunin er að efna til svokallaðs átaksverkefnis sóknaráætlunar og sérmerkja fjármagn til þess. Mun það einvörðungu vera til stuðnings Grindvískum fyrirtækjum. Til viðbótar þessu verkefni verða svokölluð stuðningslán sem nú verða framlengd. Þá eru önnur úrræði fyrir fyrirtæki í Grindavík til að afla fjármagns, hvort sem eru lán eða eigið fé.
Fyrr í þessari viku skilaði fyrrgreindur starfshópur fyrstu tillögum til ráðuneyta og er beðið niðurstöðu um endanlegt fyrirkomulag. Vonast er til að það megi kynna fljótlega. Það kerfi mun þá taka við af rekstrarstuðningi sem rennur út um komandi mánaðamót.