Markmiđ

  • Ţruman
  • 6. september 2018

Starfsemi Þrumunar tekur mið af æskulýðslögum nr. 70 frá 2007 en tilgangur þeirra er að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi. Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6-25 ára.

Eftirtaldir áhersluþættir birtast með beinum og óbeinum hætti í starfsemi Þrumunar og liggur til grundvallar því frístundastarfi sem unglingar og starfsfólk Þrumunar vinnur að.
Þruman er opin öllum börnum og unglingum á aldrinum 8 - 16 ára sem áhuga hafa á að taka þátt í starfseminni. Sérstaklega skal leitast við að ná til þeirra unglinga sem sökum áhugaleysis eða af öðrum orsökum sinna ekki heilbrigðum viðfangsefnum í frístundum sínum. Áhersla er lögð á að ná til þeirra barna og unglinga sem eru einangruð vegna líkamlegrar eða andlegrar fötlunar.

Þruman skal vera vakandi fyrir þörfum samfélagsins og finna á hvaða hátt félagsmiðstöðin getur sinnt þeim. Þruman skal ávallt vera virkt afl í þróun frístundamála í Grindavík.

Þruman vinnur að uppbyggilegu uppeldis-, fræðslu- forvarnar- og frístundastarfi og í nánu sambandi við alla þá aðila er koma að málefnum barna og unglinga með það að markmiði að sameiginlega náist sem bestur árangur. Unnið skal markvisst að uppbyggingu fjölbreyttrar starfsemi og vera hvetjandi til enn frekara starfs og reyna eins og kostur er að samræma störf félaga er sinna málefnum barna og unglinga.

Þruman vinnur markvisst með unglingalýðræði. Markmiðið er að þjálfa unglinga í að taka sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á þeirra eigin skoðunum og eigin forsendum. Unglingalýðræði er gott tæki til að sinna vitsmunaþroska, tilfinninga- og félagsþroska unglinganna og styrkja sjálfsmynd þeirra. Unglingarnir verða einnig að taka lýðræðislegar ákvarðanir þar sem þeirra eigin áhugi er ekki endilega hafður að leiðarljósi. Félagsmiðstöðin er fyrst og fremst staður fyrir unglinga og því mikilvægt að þeir taki þátt í stjórnun hennar.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR