Stofnun félagsmiðstöðvar í Grindavík má rekja allt til haustmánaða ársins 1986 en þá var samþykkt á fundi Æskulýðsráðs Grindavíkur, sem var haldinn 8. september þetta ár, að falast eftir afnotum af „Kvennó", sem kallaðist svo og var fyrrum samkomuhús í eigu kvenfélagsins á staðnum en nú í eigu sveitarfélagins (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 8. september 1986). Tilgangurinn með stofnun félagsmiðstöðvarinnar var að auka við og útvíkka félagstarf fyrir eldri árganga Grunnskóla Grindavíkur í samráði við hann (Kjartan Adólfsson, munnleg heimild, 30. mars 2010). Afnot hússins var samþykkt í bæjarráði og á næstu tveimur fundum nefndarinnar var starfið skipulagt. Voru Þormar Jensson, Grétar Schmidt og Rúnar Sigurjónsson fengnir til þess að starfa með nemendaráði Grunnskóla Grindavíkur að diskótekum þá um veturinn (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 30. september 1986). Starfsemin átti að vera fyrir 13 - 16 ára, í boði átti að vera diskótek aðra hvora helgi „og ef til vill einhverjar aðrar skemmtanir." Í fundargerð kemur fram að „næsta diskótek verði 3. okt" og má því telja þann dag sem stofndag félagsmiðstöðvastarfs í Grindavík (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 2. október 1986). Það var þó ekki fyrr en í byrjun árs 1988 að félagsmiðstöðin fékk nafnið Þruman (Kjartan Adólfsson, munnleg heimild, 30. mars 2010).
Þann 16. janúar 1987 mæta þeir Rúnar og Þormar á fund nefndarinnar og lýsa því starfi sem fram fór frá stofnun félagsmiðstöðvarinnar og fram að áramótum. Eins spyrjast þeir fyrir um laun fyrir veitt störf. Ákveðið var innan nefndarinnar að senda bréf þess efnis til bæjarstjórnar þar sem kemur fram að þeir fái laun er samsvarar yfirvinnutíma kennara við félagsstörf. Jafnframt í bréfinu er óskað eftir styrk varðandi rekstrarkostnað og tækjakaup (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 16. janúar 1987). Klárlega má sjá á fundargerðum Íþrótta- og æskulýðsnefndar Grindavíkur, að nefndin hefur meira og minna verið með tilraunastarfsemi varðandi rekstur Þrumunnar framan af. Nær tveimur árum eftir stofnun félagsmiðstöðvarinnar óskar nefndin eftir því við bæjarstjórn að ráðningartími starfsmanna sé frá 15. september ár hvert fram til 1. maí árið eftir, jafnframt fer nefndin fram á það að ekki verði „ráðið í stöðurnar nema til eins árs í senn" (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 8. september 1989). Verður ekki annað ráðið í þetta en að nefndarmenn líta á félagsmiðstöðina sem geymslustað fyrir börn og unglinga, í stað þess að nýta hana sem tækifæri til aukinnar fræðslu og um leið vettvang fyrir forvarnir. Atvinnuöryggi starfsfólks er ekkert, þeir eru ráðnir tímabundið eins og komið hefur fram, þurfa að fara eftir þröngum tímaramma varðandi opnunartíma, hlíta tilsögnum nefndarinnar um innihald dagskrár og naumt skammtaðri fjárhagsáætlun sem tekur ekki tillit til örra félagslegra breytinga hjá unglingum (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 2. september 1991). Næstu árin koma starfsmenn og fara. Það er ekki fyrr en með ráðningu Halldórs Ingvasonar í stöðu félagsmála- og skólafulltrúa að einhver festa fer að myndast í starfseminni. Þrátt fyrir titilinn starfaði hann einnig fyrir Íþrótta- og æskulýðsnefnd (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 3. september 1990). Um haustið 1988 var Kjartan Adólfsson ráðinn sem forstöðumaður Þrumunnar og er það í fyrsta skipti sem ráðið er eftir því starfsheiti (Kjartan Adólfsson, munnleg heimild, 30. mars 2010). Starfið gengur af vel þennan tíma, mikil mæting og þátttaka í klúbbum. Eitthvað virðist þó vera um að unglingar séu með áfengi um hönd. Taka á málinu með því að viðhafa strangar reglur og fara yfir „reglur og almenna starfshætti" í byrjun hvers starfsárs (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 25. febrúar 1992). Haustið 1992 flytur Þruman á efri hæð félagsheimilisins Festi, sem er ofar í og meira miðsvæðis í bænum og þar að auki í nálægð við íþróttahús og grunnskóla. Aðsókn eykst og eru unglingarnir ánægðir með húsnæðið, sem er töluvert stærra en fyrrverandi aðstaða í Kvennó. Með aukinni aðsókn í félagsmiðstöðina koma fram umræður um að endurskoða skipulagningu tímafjölda fyrir starfsemina en fram að þessu var tímafjöldi forstöðumanns heilar 40 yfirvinnustundir á mánuði (Kjartan Adólfsson, munnleg heimild, 30. mars 2010.)
Þegar líða fer á vorið 1993, fer los að koma í starfsfólkið og ber jafnvel við að enginn sé til staðar á auglýstum opnunartíma. Einnig hefur orðið vart við það að unglingar séu að reykja í anddyri félagsmiðstöðvarinnar. Félagsmiðstöðin er síðan opin þá um sumarið með einu opnu húsi í viku og mánaðarlegu diskóteki eða skífuskralli eins og tíðkaðist að kalla það. Þegar líða fer að hausti og vetrarstarfið skipulagt kemur í ljós að launakostnaður er kominn framúr áætlun. Ekki kemur þó til lokana eða lágmarksopnunar um veturinn. Kjartan Adólfsson er við störf allt til haustmánaða 1993, er hann segir starfi sínu lausu með bréfi dagsettu 15. október það ár (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 28. október 1993). Næsti forstöðumaður Þrumunnar er Sólný Pálsdóttir og kemur hún til starfa um haustið 1993, eftir skyndilegt brotthvarf Kjartans. Enn er haldið á sömu braut með sömu vinnubrögðum og er Sólný einungis ráðin til eins starfsárs í senn, í takt við skólaárið (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 30. ágúst 1994). Sólný er við störf til vorsins 1996 og um haustið það ár, er Steinunn Óskarsdóttir ráðin forstöðumaður Þrumunnar. Á þessum tímapunkti fer fram en á ný umræða í Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur um að breyta starfslýsingu og jafnframt að skoða betur samstarfið milli Þrumunnar og grunnskólans, sérstaklega með samnýtingu á starfsfólki í huga. Tillaga er samþykkt þess efnis með þremur atkvæðum, tveir sátu hjá og var hún síðan lögð fyrir bæjarráð (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 4. september 1996). Af fundargerðum Íþrótta- og æskulýðsnefndar Grindavíkur frá seinniparti árs 1996, má ráða að eitthvað virðist vera í ólagi í samskiptum milli skóla og félagsmiðstöðvarinnar og í svarbréfi Bæjarráðs Grindavíkur til nefndarinnar vegna breytingar á starfslýsingu forstöðumanns er minnst á það. Nefndin ætlar að „skoða þessi mál í samvinnu við forstöðumenn viðkomandi stofnana og gera tillögur að breytingum ef þörf þykir" (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 26. nóvember 1996). Fyrripart árs 1997 koma samskipti milli skóla og félagsmiðstöðvar enn á borð nefndarinnar og nefndarmenn allir sammála um að gott samstarf þarf að vera á milli stofnananna tveggja. Umræður sköpuðust hvort hentugra væri að hafa Þrumuna innan veggja skólans, í væntanlegri nýbyggingu við hann, eða þá í öðru húsnæði. Þá var haft á orði, hvort lausnin sé ekki að ráða starfsmann sem sinnti félagsstarfi, bæði í Þrumunni og í grunnskólanum (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 7. apríl 1997). Ekki er Steinunn lengi við störf því haustið 1997 er enn ráðinn nýr forstöðumaður fyrir Þrumuna og í þetta sinn er það Trausti Harðarson. Á fundi með nefndinni er lögð fram starfsáætlun fram til áramóta þetta ár. Samanstóð það af hefðbundnum viðburðum í bland við nýjungar. Í byrjun marsmánaðar 1998 kemur í ljós þegar einungis tveir mánuðir eru liðnir af fjárhagsárinu að eitthvað virðist ekki með felldu í rekstri félagsmiðstöðvarinnar. Eftir talsverðar umræður um fjárhagsáætlun þá samþykkir nefndin að leggja til að auglýsa starf forstöðumanns sem fyrst (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 7. mars 1998). Ekki kemur þó til þess, þar sem kom í ljós að um einhvern misskilning hjá nefndarmönnum var um að ræða. Forstöðumaður Þrumunnar er síðan boðaður á fund og fékk hann þar með tækifæri til þess að segja frá sinni hlið, sem ekki var gert strax í byrjun. Niðurstaðan af þeim fundi var síðan sú að formaður Íþrótta- og tómstundanefndar Grindavíkur „biður forstöðumann Þrumunnar afsökunar á klaufalegri bókin í fundargerð frá 7. mars" (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 13. maí 1998).
Eins og hefð var orðið fyrir, þá var um seinniparts sumars 1998, enn á ný auglýst staða forstöðumanns Þrumunnar. Þrír umsækjendur eru um stöðuna og enginn þeirra uppfyllti þær æskilegu kröfur sem nefndin lagði fram, það er að segja með uppeldisfræðilega menntun, allir höfðu þó reynslu af því að vinna með börnum og unglingum í gegnum íþróttir. Þrír nefndarmenn viku frá fundi á meðan var verið að ræða um umsóknirnar, tveir vegna þess að þeir voru sjálfir umsækjendur og einn vegna fjölskyldutengsla. Niðurstaða nefndarinnar var að lokum sú, að mæla með þeim sem var ekki sjálfur í nefndinni sem næsta forstöðumann Þrumunnar og var það Kristján Kristmannsson. Eins og fyrirrennarar hans í starfi þá þarf hann að sæta tilsögn nefndarinnar varðandi dagskrá (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 6. október 1998). Á haustmánuðum 1998 er lögð fram bókun frá einum nefndarmanna Íþrótta- og æskulýðsnefndar Grindavíkur, Garðari Páli Vignissyni, þar sem hann leggur til að í stað einnar félagsmiðstöðvar, Þrumunnar, þá verði starfræktar tvær. Önnur á núverandi stað í Festi, og átti hún að þjónusta 9. - 10. bekk, auk fyrsta árgangar í fjölbrautaskóla en hin í væntanlegri nýbyggingu Grunnskóla Grindavíkur, þar sem átti að þjónusta 6. - 8. bekk. Engan kostnaðarauka átti að þurfa til þar sem sami forstöðumaður ætti að sinna báðum félagsmiðstöðvum, auk þess sem hann sinnti forvörnum meira en áður var gert. Rökin fyrir þessari uppskiptingu að það þýddi lítið að vera með eina félagsmiðstöð sem þjónustaði 6. - 10. bekk, þar sem „líftími félagsmiðstöðva er sagður 3 ár" og forvarnastarf þyrfti að hefja fyrr en áður var gert (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 4. nóvember 1998). Vegna brottflutnings Kristjáns Kristmannssonar úr bænum, þá er nefndin enn á ný komin í startholurnar varðandi að fá nýjan starfskraft í stöðu „forstöðumanns æskulýðsmála."
Staðan er auglýst eins og venja ber til, en engin sækir um. Nefndin leggur þá til að auglýst verði aftur en í þetta sinn „eftir íþrótta- og æskulýðsfulltrúa sem yrði yfirmaður þessara málaflokka á vegum Grindavíkurbæjar (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur,1. júní 1998). Aðeins einn umsækjandi var um stöðuna og var hann talinn álitlegur samkvæmd nefndarmönnum og í framhaldi af viðræðum við umsækjanda á er lagt til að hann verði ráðinn til starfsins, sem var gert (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 7. september 1999). Starfskrafturinn sem um ræðir, Stefán Ó Aðalsteinsson, var ekki langlífur í starfi. Þegar hauststarfið er vart hálfnað kemur upp óánægja Íþrótta- og æskulýðsnefndar með störf tómstundafulltrúa og er það rakið til starfseminnar sem fer fram í félagsmiðstöðinni (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 24. nóvember 1999). Málalok urðu þau að farið var fram á starfslok Stefáns. Um leið og samkomulag hefði tekist um það, átti að auglýsa stöðuna sem fyrst (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 7. desember 1999). Ekki voru margir dagar liðnir af árinu 2000, þegar nýráðinn æskulýðsfulltrúi Ágústa Gísladóttir, kemur til starfa (Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur, 4. janúar). Með ráðningu Ágústu virðist hafa orðið vendipunktur í sögu félagsmiðstöðvar í Grindavík. Fjölmargar nýjungar koma í ljós og nefndin mjög ánægð með hennar störf. Starfsemin gengur vel og festa er komin á starfsmannahald. Sýnir Íþrótta- og æskulýðsnefnd reglulega með bókunum í fundargerðir, ánægju með störf hennar og minna er um afskiptasemi af dagskrá og verklagi, sem vart var við þegar um fyrri forstöðumenn var að ræða. Ágústa er við störf til ársins 2007, er hún hættir störfum. Við starfinu tekur Hrund Scheving en eingöngu sem forstöðumaður Þrumunnar í 50% starfi. Hrund starfar frá september 2007 til júníloka 2008 (Hrund Scheving, munnleg heimild,17. mars 2010). Haustið 2008 kemur síðan Kristinn Reimarsson til starfa sem frístunda- og menningarfulltrúi Grindavíkurbæjar í 100% stöðu og jafnframt veitir félagsmiðstöðinni Þrumunni forstöðu. Hans fyrsta verk var að flytja félagsmiðstöðina í upprunalegt húsnæði í Kvennó, vegna breytinga á félagsheimilinu Festi. Starfið gengur mjög vel, þó svo að mæting mætti vera meiri og má leita skýringa á því, með núverandi staðsetningu félagsmiðstöðvarinnar frekar en að stærð húsnæðisins sjálfs sé til trafala. Hefðbundin starfsemi er í gangi, ekki þó mikið um klúbba en meira um að unglingar komi og hangi eins og það er kallað meðal þeirra (Kristinn Reimarsson, munnleg heimild, 11. mars 2010).
Breytingar verða aftur á starfseminni haustið 2013 þegar sú breyting að ráðinn er frístundaleiðbeinandi í fullt starf. Starfið byggir á samstarfi skólans og frístunda- og menningarsviðs. Fram að þessu höfðu ýmsir aðilar sinnt verkefnum í félagsmiðstöðinni og í félagslífi nemenda en þarna var þetta sameinað í eitt starf. Megin viðfangsefni frístundaleiðbeinanda er að leiðbeina og hafa umsjón með börnum og unglingum á aldrinum 10 - 16 ára sem sækja félagsmiðstöðina, að skipuleggja og undirbúa viðburði í félagsmiðstöðinni, að sinna fyrirbyggjandi forvörnum og sér alfarið um félagslíf nemenda í Grunnskóla Grindavíkur, stýrir störfum nemendaráðs undir stjórn skólastjóra.
Þorsteinn Gunnarsson var ráðinn sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs í desember 2013. Haustið 2014 flytur Þruman úr Kvennó yfir í Grunnskóla Grindavíkur. Félagsmiðstöðin var því opin á skólatíma fyrir börn og unglinga og geta þau því eytt bæði frímínútum og eyðum í stundatöflu í félagsmiðstöðinni sinni. Hefðbundið starf var síðan á kvöldin eins og hefð er fyrir.
Unnið af mestu af Agnari Júlíussyni. Lokaverkefni til B.A.-gráðu í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands, Menntasvið. apríl 2010.