Grindavíkurbæ barst nýverið að gjöf listaverk frá listakonunni Guðbjörgu Hlíf Pálsdóttur. Verkið, sem ber heitið Kerlingar, hefur nú verið fundinn staður í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga.
Táknrænt verk með sterkum boðskap
Verkið Kerlingar var unnið á árunum 1996–1997 úr birkikrossviði. Verkið er samsett úr yfir 170 sérsniðnum einingum sem eru límdar saman og vandlega pússaðar til að skapa mýk form sem endurspegla mildi, vináttu og samstöðu. Guðbjörg segir verkið tákna styrk og samhug kvenna, og vill hún endurheimta virðingu þess merkingarhlaðna orðs kerling, sem áður var notað um vinnukonur og kennslukonur, en hefur í dag fengið neikvæðan hljóm. Með verkinu vill hún upphefja orðið og minna á gildi samstöðu og mildi, eiginleika sem skipta Grindvíkinga nú sérstaklega miklu máli.
Guðbjörg og list hennar í bæjarmyndinni
Guðbjörg Hlíf Pálsdóttir er Grindvíkingum að góðu kunn. Hún bjó í Grindavík í áratugi og mörg þekkja verk hennar sem prýða hringtorg við Hópsbraut, Afl hafsins og Dans seglanna. Með Kerlingum bætist enn eitt eftirminnilegt listaverk í safn Grindvíkinga, sem endurspeglar styrk bæjarins og anda samfélagsins.