Tjaldsvæðið í Grindavík opnar formlega í fyrramálið, föstudaginn 23. maí. Svæðið hefur verið metið öruggt og tilbúið til að taka á móti gestum.
Tjaldsvæðið liggur utan við sprungubelti en engu að síður hefur farið fram ítarleg sjónskoðun á svæðinu af hálfu viðeigandi sérfræðinga. Engin ummerki um sprungur fundust. Þá hafa allar byggingar á svæðinu verið teknar út og samþykktar af byggingafulltrúa Grindavíkurbæjar og Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.
Öryggi gesta er ávallt í forgangi og verður staðan endurmetin tafarlaust ef breyting verður á hættustigi vegna jarðhræringa, í samstarfi við viðbragðsaðila og sérfræðinga.
Öruggt, fjölskylduvænt og vel búið
Tjaldsvæðið í Grindavík var tekið í notkun árið 2009 og býður upp á fjölbreytta og vandaða aðstöðu fyrir ferðafólk. Á svæðinu er rúmlega 200 fermetra þjónustuhús og 42 stæði fyrir húsbíla, fellihýsi og tjaldvagna.
Á svæðinu er fullkomin aðstaða til seyrulosunar og malbikuð og hellulögð bílastæði í innkomu tjaldsvæðisins. Tvö vel búin leiksvæði fyrir börn eru á staðnum, meðal annars með rólum, köstulum, kóngulóarneti og fleiri leiktækjum.
Í þjónustuhúsinu er aðstaða til matargerðar, sturtur, þvottahús og aðgangur að interneti. Allt er þetta til þess fallið að tryggja gestum þægilega og notalega dvöl.
Við hlökkum til að taka á móti ferðalöngum og bjóðum ykkur hjartanlega velkomin til Grindavíkur!
Verðskrá sumarið 2025
Innifalið er leiga á stæði, aðgengi að afþreyingu á tjaldsvæðinu, útigrill, salerni, sturta og seyrulosun.
Verð er eftirfarandi:
Ekki er hægt að taka frá pláss
Gerðu meira úr heimsókn til Grindavíkur í sumar!
Í tengslum við heimsókn til Grindavíkur er tilvalið að skoða það sem bærinn hefur upp á að bjóða. Í Grindavík má finna veitingastaði, gistingu og afþreyingu. Kynntu þér það sem í boði er á visitgrindavik.is.