Pistill bćjarstjórnar: Bjartari tímar framundan í Grindavík

  • Fréttir
  • 14. maí 2025

Kæru Grindvíkingar,

Það hefur margt jákvætt gerst í málefnum Grindavíkur síðustu vikur. Meira líf og umferð er að færast í bæinn okkar, og á næstu vikum má gera ráð fyrir frekari jákvæðum tíðindum.

Samhliða þessu hefur starfsfólk Grindavíkurbæjar, ásamt bæjarfulltrúum og fjölmörgum samstarfsaðilum, unnið markvisst og af mikilli alúð að greiningu ástandsins í Grindavík og mótun aðgerða sem leggja grunn að öflugu, öruggu og sjálfbæru samfélagi til framtíðar.

Við höfum á grundvelli þessara greininga unnið aðgerðalista sem tekur á fjölmörgum þáttum, bæði til skamms tíma og lengri tíma litið. Lykilatriði í þessari vinnu er að tryggja öryggi og virkni innviða, þannig að við getum tekið örugg skref til að byggja aftur upp bæjarbrag og samfélag í Grindavík.

Brýn þörf fyrir sameiginlega sýn og samstillt átak

Markmið aðgerðalistans er ekki síst að kalla eftir samstilltu átaki allra þeirra fjölmörgu aðila sem koma að málefnum Grindavíkur. Nauðsynlegt er að þróa sameiginlega sýn á þær aðgerðir sem brýnast er að ráðast í, enda er verkefnið umfangsmikið og álitamálin mörg. Það er brýnt að samstaða náist um næstu skref og að þau komi til framkvæmda af fullum þunga. Því þarf að horfa á sumarið sem tækifæri til sóknar með skýru markmiði um að flýta uppbyggingu, auka öryggi og styðja við samfélagið í Grindavík.

Fjölmörg verkefni á aðgerðalista Grindavíkurbæjar

Verkefnin á aðgerðalistanum eru flokkuð í tvo forgangsflokka. Hér að neðan má sjá dæmi um þau verkefni sem eru á aðgerðaáætluninni:

Verkefni í forgangi 1 – brýnast til framkvæmdar:

Niðurrif altjónshúsa – Mikilvægt skref til að rýma fyrir uppbyggingu og skapa öruggt umhverfi.

Sprunguviðgerðir innan þéttbýlis – Mikilvægt öryggisverkefni sem skapar grundvöll fyrir opnun og notkun byggðar að nýju.

Greining á möguleikum til nýtingar eigna Þórkötlu – Stuðlar að hagkvæmri uppbyggingu og endurheimt atvinnulífs og samfélags.

Trygging fyrir starfsemi og rekstri slökkviliðs Grindavíkur – Nauðsynlegt fyrir öryggi íbúa og innviða.

Trygging raforkuöryggis - Undirstaða annarra innviða og grunnkerfa, svo sem hita, ljós og fjarskipta.

Stofnanir Grindavíkurbæjar – Skilgreining og þróun á hlutverki og starfsemi grunnstoða sveitarfélagsins til að mæta nýjum áskorunum.

Verkefni í forgangi 2 – til frekari úrvinnslu og undirbúnings:

Framtíðarskipulag og uppbygging innviða – Stuðlar að langtímasýn fyrir bæinn með sjálfbærni og öryggi í forgrunni.

Endurbætur á skóla-, félags- og frístundaaðstöðu – Tryggir að þjónusta við börn og fjölskyldur verði traust og aðgengileg til framtíðar. 

Varavatnsból á Vatnsheiði – Kaldavatnslögn er nú undir hrauni og nauðsynlegt er að bora eftir neysluvatni norðaustan Grindavíkur til að tryggja varaleið og veituöryggi.

Endurbætur á Grindavíkurhöfn – Hækka þarf Kvíabryggju um allt að 1,5 m til þess að hún standi af sér flóð.

Sprunguviðgerðir og raforkuöryggi í forgangi

Eitt stærsta verkefnið er niðurrif altjónaðra húsa og viðgerðir á sprungum innan bæjarmarka, þar sem þegar hefur verið lagt upp með framkvæmdir sem nema hundruðum milljóna króna. Þessar viðgerðir eru ekki aðeins nauðsynlegar til að tryggja öryggi bygginga heldur einnig forsenda þess að hægt sé að fjarlægja girðingar og endurheimta eðlilegt líf í bænum.

Ótryggt raforkuöryggi í Grindavík er óásættanlegt og staðan ógnar bæði öryggi og uppbyggingu bæjarins. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og viðvaranir hefur ekki tekist að tryggja bæjarfélaginu örugga rafmagnstengingu. Málið hefur margsinnis verið rætt í kerfinu, milli stofnana, ráðuneyta og orkufyrirtækja án þess að niðurstaða hafi fengist. Það er ekki ásættanlegt.

Grindvíkingar eiga rétt á öruggri grunnþjónustu og raforka er ein af undirstöðum samfélagsins. Án traustrar tengingar eru önnur lífsnauðsynleg kerfi, á borð við hitaveitu, fjarskipti og öryggisþjónustu, í hættu. Bæjarfulltrúar krefjast þess að tafarlaust verði gripið til aðgerða af hálfu viðeigandi yfirvalda og raforkuöryggi og nægjanlegt framboð raforku verði tryggt án frekari tafar.

Sumarið er besti tíminn til aðgerða

Endurreisnin er hafin. Við höfum trú á framtíð Grindavíkur. Í framtíðinni verða traustir innviðir, öryggi og samheldni íbúanna hornsteinar samfélagsins.

Við höfum ítrekað lagt áherslu á að þetta vor og sumar gefi okkur einstakt tækifæri til að snúa vörn í sókn. Nú bíðum við svara frá Grindavíkurnefndinni, forsætisráðuneytinu, Alþingi og öðrum lykilaðilum sem hafa áhrif á ákvarðanir um framtíð bæjarins. Grindavíkurbær hefur lýst sig reiðubúinn til að leggja fram um 200 milljónir króna til að hraða sprunguviðgerðum og öðrum brýnum verkefnum. Við höfum fundið fyrir jákvæðum viðbrögðum, en það er ljóst að við getum ekki tekist á við þetta verkefni ein. Við Grindvíkingar reiðum okkur á að ríkið komi að þessu með okkur.

Við vonum að við þurfum ekki að bíða lengi eftir viðbrögðum. Með samstilltu átaki, og áframhaldandi góðu samstarfi við ykkur, kæru Grindvíkingar, höldum við áfram að byggja upp bæinn okkar, skref fyrir skref.

Með þökk og trausti,

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar

13. maí 2025


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 11. júní 2025

Sundlaug og íţróttaskóli 17. júní

Fréttir / 30. maí 2025

Sjómannadagshelgin í Grindavík 2025

Fréttir / 30. maí 2025

Listaverkagjöf til Grindavíkurbćjar

Fréttir / 30. maí 2025

Ađalsafnađarfundur 2025

Fréttir / 28. maí 2025

Allir vegir liggja enn til Grindavíkur

Fréttir / 26. maí 2025

Menningarmorgunn í Kvikunni

Fréttir / 22. maí 2025

Götuboltamót Stinningskalda 2025

Fréttir / 21. maí 2025

Sjómannadagshelgin í Grindavík 2025

Fréttir / 19. maí 2025

Ađalfundur knattspyrnudeildar UMFG