Seigla í atvinnulífinu í Grindavík ţrátt fyrir áskoranir

  • Fréttir
  • 17. janúar 2025

Atvinnulífið í Grindavík hefur sýnt merki um bata, þó umfangið sé minna en í nóvember 2023 þegar náttúruhamfarir höfðu mikil áhrif á svæðið. Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í vikunni sýna að alls sóttu 760 starfsmenn vinnu í Grindavík hjá 34 grindvískum fyrirtækjum og sveitarfélaginu þann 15. janúar. 

Könnunin var framkvæmd til að öðlast nánari skilning á umfangi atvinnurekstrar í bænum. Send var út könnun á fyrirtæki sem vitað var að væru með starfsemi í Grindavík. Í kjölfarið var hringt á eftir svörum til þeirra sem ekki svöruðu.

Könnunin náði aðeins til þeirra starfsmanna sem mæta til vinnu í Grindavík, en ekki þeirra sem vinna fyrir grindvísk fyrirtæki utan sveitarfélagsins. Í þessum tölum eru heldur ekki taldir starfsmenn fyrirtækja með skráð aðsetur utan Grindavíkur, t.d. verktakar sem vinna við varnargarða eða utanaðkomandi þjónusta fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi.

Skipt niður eftir atvinnugreinum

Starfsmönnum var skipt niður eftir atvinnugreinum. Niðurstöðurnar sýna greinilega hversu fjölbreytt atvinnulífið í Grindavík er:

Atvinnugrein Fjöldi fyrirtækja Fjöldi starfsmanna Meðalfjöldi starfsmanna Miðgildi starfsmanna
Ferðaþjónusta 7 330 47,1 6
Sjávarútvegur og tengd starfsemi 11 250 22,7 6
Eldi á fiski o.fl. 3 28 9,3 10
Iðnaður og þjónusta 12 126 10,5 6
Opinber starfsemi 1 26 - -
Alls  34 760 22,3 6

 

Helmingur starfsfólks innan þéttbýlis

Könnunin leiddi einnig í ljós að nákvæmlega helmingur starfsfólks var að störfum innan þéttbýlismarka Grindavíkur. Að auki eru í Grindavík að störfum starfsmenn fyrirtækja með aðsetur annars staðar, þar á meðal verktakar sem vinna við varnargarða og þjónustuaðilar tengdir sjávarútvegi.

Stuðningur og endurmat í framtíðinni

Þrátt fyrir áskoranir hafa umsvif atvinnulífs í Grindavík verið að aukast. Stefnt er að því að endurtaka könnunina næstu mánuði til að fylgjast með þróuninni.

Með áframhaldandi stuðningi stjórnvalda og samstöðu um að styðja við atvinnulífið í Grindavík er vonast til að starfsfólki fjölgi enn frekar og að atvinnulífið verði tilbúið þegar Grindvíkingar snúa aftur heim.


Deildu ţessari frétt