Grenndargámar hafa nú verið settir upp fyrir utan Grunnskóla Grindavíkur við Ásabraut. Þar eru nú tveir gámar fyrir almennt sorp, einn fyrir plast, einn fyrir pappa og fjórar tunnur fyrir lífrænt sorp en þær eru festar við girðinguna bak við gámana svo þær fjúki ekki. Komin er reynsla á fyrirkomulagið en gámarnir eru eingöngu ætlaðir fyrir heimilissorp en ekki rekstrarúrgang eða iðnaðarsorp.
Gámaplanið er enn opið en opnunartímar frá og með 1. desember verða mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá 15:00-18:00 og á laugardögum frá 12:00-17:00, lokað er á sunnudögum, sjá hér. Íbúar eru hvattir til þess að nýta sér gámaplanið á meðan það er opið en líkur eru á að því verði lokað frá 1. janúar.
Söfnun sorpíláta frá íbúðarhúsnæði
Bæjarráð samþykkti nýlega að gefa körfuknattleiks- og knattspyrnudeild Grindavíkur kost á því að afla fjár gegn því að fjarlægja sorpílát sem standa við heimili. Þessar deildir hafa haldið mikilvægu íþróttastarfi sínu áfram. Eins og margir hafa tekið eftir þá eru þau þegar byrjuð og hafa nú safnað rúmlega 1.000 ílátum og flutt til Njarðvíkur. Aðalástæðan fyrir þessari söfnun er til að hlífa þeim gegn veðri og vindum, en hin er sú að sorphirðu frá heimilum hefur verið hætt í bili í Grindavík.