Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur hefur tekið saman áætlun um aðgerðir vegna húsnæðismála Grindvíkinga. Í áætluninni er farið yfir stöðuna og vandinn greindur. Þar kemur fram að þrátt fyrir að enn sé ýmislegt óljóst og eigi eftir að taka á sig skýrari mynd þá sé húsnæðisvandi allnokkurra íbúa til staðar. Það hafi komið fram í könnun sem Maskína framkvæmdi og m.v. niðurstöður á úthringingum þjónustuteymisins.
Í september voru 576 heimili sem fengu sértækan húsnæðisstyrk skv. lögum. Hann mun um áramótin falla niður og því ekki hægt að segja til um hvaða áhrif það mun hafa að svo stöddu.
Að mati Grindavíkurnefndarinnar er það nauðsynlegt að ráðist verði í aðgerðir til að vinna á vanda þeirra sem eru í hvað brýnustum vanda. Svigrúm þurfi til að mæta þeim sem kunna að lenda í húsnæðisvanda á komandi ári.
Meginatriði áætlunarinnar
Grindavíkurnefndin leggur til að eftirfarandi aðgerðir verði lagðar til grundvallar í áföngum:
1. Heimild til samninga við sveitarfélög og húsnæðissamvinnufélög um kaup eða byggingu íbúða:
2. Að heimildir Þórkötlu ehf. Til uppkaupa á íbúðum í Grindavík, sem eru í eigu óhagnaðardrifinna félaga.
3. Að húsnæðisstuðningur fyrir tekjulága verði framlengdur út árið 2025.
4. Að íbúum Grindavíkur verði tryggður ákveðinn fjöldi hlutdeidarlána.
5. Að ákvæðið í 3ju grein laga um uppkaup íbúðarhúsnæðis í Grindavík verði framlengt til 30. júní 2025.
6. Að heimilt verði að framkvæma, án deiliskipulags, vegna náttúruhamfara. Skammtíma staðsetningar húsa verði leyfð á svæðum sem ekki eru deiliskipulögð.
7. Að aðgerðir vegna rýmingar Grindavíkur verði yfirfarnar og skoðaðar, vegna félagslegra þátta íbúa, þ.m.t. húsnæðismála.
Íbúðum verði fjölgað
Grindavíkurnefndin leggur til að heimild verði veitt til að semja við húsnæðisfélög sem ekki eru hagnaðardrifin, um kaup eða byggingu á alls 90 íbúðum. Tekið verði mið af húsnæðisþörf og byggt upp í samræmi við hana í áföngum árið 2025, annað hvort í áföngum. Þórkatla ehf. fái heimild til að kaupa þær 48 íbúðir sem eru í eigu lögaðila og eru ekki reknar í hagnaðarskyni. Þau uppkaup verði skilyrt þannig að viðkomandi lögaðilar skuldbinda sig til að útvega Grindvíkingum sambærilegar íbúðir annars staðar.
Sértækur húsnæðisstuðningur áfram fyrir tekjulága
Búist er við að tekjulágar fjölskyldur lendi í vanda þegar sértækur húsnæðisstuðningur fellur niður um áramótin. Því leggur nefndin til að sértækur húsnæðisstuðningur verði framlengdur óbreyttur út næsta ár.
Sérstök heimild til hlutdeildarlána
Nefndin leggur til að ríkið veiti sérstaka heimild til ákveðins fjölda hlutdeildarlána, sem ætlað væri til að styðja einstaklinga og fjölskyldur að greiða útborgun til íbúðakaupa, þrátt fyrir að ekki væri um fyrstu kaup að ræða. Þessi lán myndu nýtast tekjulágum fjölskyldum eða þeim sem seldu eign í Grindavík með litlu eigin fé.
Frestur til að óska eftir uppkaupum verði framlengdur
Lagt er til í aðgerðaráætluninni að frestur íbúa til að óska eftir uppkaupum verði framlengdur. Í stað þess að hann verði við árslok 2024 verð fresturinn lengdur til 30. júní 2025.
Flýta fyrir uppbyggingu með neyðarákvæði í skipulagslögum
Grindavíkurnefndin leggur til að vegna skorts á framboði húsnæðis á suðvesturhorninu þá verði sérstök heimild gefin í skipulagslögum, að vegna náttúruhamfara verði ráðherra heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að staðfesta deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir íbúabyggð í aðalskipulagi. Þessi heimild verði gefin án hefbundinnar málsmeðferðar. Þá er líka lagt til að heimild verði gefin fyrir færanlegar íbúðaeiningar.
Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að framlagðar tillögur séu settar fram á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu fyrir um húsnæðismál Grindvíkinga. Sá fyrirvari sé settur á tillögurnar að kalli aðstæður á frekari aðgerðir sé mikilvægt að Grindavíkurnefndin geti brugðist við þeim með frekari tillögum og aðgerðaráætlun.