Geir gefur Grindvíkingum lag

  • Fréttir
  • 30. október 2024

Söngvarinn Geir Ólafsson mætti í kaffispjall í Kvikuna í morgun. Rúm vika er síðan hann gaf út lagið Bærinn okkar, tileinkað Grindvíkingum í kjölfar náttúruhamfaranna.

Lagið kom út daginn sem Grindavík opnaði eftir 11 mánaða lokun. „Ég hef alltaf á gott, farsælt og kærleiksríkt samband við ykkur Grindvíkingana. Ég er gríðarlega stoltur að fá að koma hérna í dag ásamt útgefanda mínum Óttari Felix Haukssyni, sem er einn af lifandi goðsögnum þessa lands sem hefur gefið út fjöldann allan af efni.“

Geir sagði í ávarpi í Kvikunni að hugmyndin að laginu hafi komið í kjölfar árlegra jólatónleika. Þar komi saman færustu hljóðfæraleikarar á Íslandi til að spila með honum. „Þegar óvissan var gríðarleg hér í Grindavík, þá áttum við reglulega fjarfundi. Þrátt fyrir að nóg væri að gera hjá þeim í að spila tónlist alla daga þá voru þeir alltaf að spyrja hvernig fólkinu í Grindavík liði.“ Geir sagði að þetta hafi verið vikulegir fundir alveg frá janúar nánst til dagsins í dag. Hann hafi í kjölfarið spurt hvort þeir myndu ekki vilja taka upp lag fyrir Grindvíkinga með íslenskum texta. Þeir hafi verið meira en til í það.

Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs flutti ávarp þar sem hann þakkaði hlýjan hug í garð okkar Grindvíkinga og um leið fyrir þá gjöf sem lagið er. 

Textann samdi Kristján Hreinsson en hann má finna hér fyrir neðan. 

Meðfylgjandi mynd er af Hjálmari Hallgrímssyni, formanni bæjarráðs og Geir Ólafssyni.

Hér má hlusta á útgáfu af laginu.

BÆRINN OKKAR

Þú átt alltaf okkar huga
og ekkert mun þig buga,
þú ert von sem vekur mig
þegar bárurnar berja kletta
brimið fær hátt að skvetta
fögur minning mun faðma þig.

Ó, Grindavík af gleði rík
á góðum stað við fundum það
sem lífið leitaði að
og þitt ólgandi haf
okkur draumana gaf
hafið þitt sem hugann laðar
og heimur okkar er von sem grær
þegar hjartað hraðar
og hraðar slær,
áfram lifir okkar bær.
Ó-já.

Ó, Grindavík af gleði rík
glaðlega minningin er engu lík,
Haust, sumar, vetur og vor
með von og þor.
Ó-já, ó-já, ó-já! Ó, Grindavík.

Já, við stóðum hlið við hlið
þar höfðum við frið
þegar Þorbjörn gaf skjól
við þúfu og hól
við héldum heilög jól.

Ó, Grindavík af gleði rík
á góðum stað við fundum það
sem lífið leitaði að
og þitt ólgandi haf
okkur draumana gaf ...      
                   

Kristján Hreinsson                                
 


Deildu ţessari frétt