Margt verður um að vera helgina 25.-27. október n.k. þegar Safnahelgi á Suðurnesjum fer fram. Þá bjóða sveitarfélögin á Suðurnesjum landsmönnum í heimsókn til að skoða fjölbreytta flóru safna, setra og sýninga á Suðurnesjum þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Alla jafna hefur Safnahelgin verið haldin í mars en í ljósi aðstæðna sem uppi voru í Grindavík í byrjun árs var tekin ákvörðun um að fresta viðburðinum fram í október.
Ljósmyndasýningin Reykjanes vaknar hefur verið sett upp á planinu við gamla Festi. Sýningin segir sögu níu eldgosa á þremur árum, hættuástands, björgunaraðgerða, flóttans úr Grindavík, gerð varnarmannvirkja og sögur af fólki. Ljósmyndirnar eru úti og aðgengilegar allan sólarhringinn.
Sigurður Ólafur Sigurðsson ljósmyndari er með bakgrunn í leit og björgun og menntun björgunarfólks. Sigurður hefur tekið fjölda ljósmynda á Reykjanesi á síðustu árum. Á sýningu hans má sjá nokkrar þessara mynda, m.a. af íbúum og störfum viðbragðsaðila á vettvangi.
Alla dagskrá má nálgast á vef safnahelgar, safnahelgi.is, en meðal dagskrárliða eru tónleikar með hljómsveitinni Lón, fjölskyldusamvera og smiðjur, leiðsagnir, frábærar list- og sögusýningar ásamt því að einkasafnarar opna sýningar sínar. Fulltrúar sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar og er verkefnið stutt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.
Aðgangur að Safnahelginni er ókeypis og er fólk sérstaklega hvatt til þess að taka fjölskylduna með sér á rúntinn og skoða það sem söfn, setur og sýningar á Suðurnesjum hafa upp á að bjóða.