Út er komin vönduð 416 blaðsíðna ljósmyndabók með ljósmyndum og stuttum frásögnum af atburðum á Reykjanesi frá janúar 2020 til haustsins 2024. Hátt í 500 myndir eru í bókinni og formáli eftir Guðna Th Jóhannesson, fyrrverandi forseta.
Sigurður Ólafur Sigurðsson er höfundur og ljósmyndari bókarinnar sem kom út um miðjan október. Í síðustu viku var sett upp ljósmyndasýning á bílastæðinu við Festi þar sem finna má valdar ljósmyndir úr bókinni, 30 talsins. Sú sýning var áður á hafnarbakkanum við Hörpu í tengslun við ráðstefnuna Björgun. Þá hefur verið komið upp ljósmyndasýningu í Kvikunni sem áður var í ráðhúsi Reykjavíkur í tilefni Menninganætur, en Grindavík var heiðursgestur hátíðarinnar í ár. Þær ljósmyndir eru einnig eftir Sigurð Ólaf. Þar var fókusinn að sögn Sigurðar meira á rýminguna og áhrif hennar á íbúa bæjarins.
Aldrei ljósmyndað neitt í líkingu við jarðhræringarnar
Sigurður Ólafur var tekinn tali þegar hann var að vinna við uppsetningu sýningarinnar við Festi í síðustu viku. „Ég byrjaði að taka myndir á íbúafundinum 2020. Ég hef verið að ljósmynda fyrir Landsbjörgu og neyðartengd málefni í um 15 ár. Ég hef aldrei ljósmyndað neitt í þessari líkingu. Aðallega hafa þetta verið stök verkefni tengd leit og björgun en svo ljósmyndaði ég töluvert í kringum Covid. Það var verkefni sem var stórt en ekkert í líkingu við þetta.“
Aðspurður hversu margar myndir hafa verið teknar í tengslum við hamfarirnar segir hann þær í kringum 90 þúsund. Sigurður setur sjálfur upp bókina og sendur einnig að útgáfu hennar. Hann sjái í raun um allt nema prentunina.
Markmiðið ekki að vera með jólabókina í ár
Sigurður segir markmiðið með útgáfu bókarinnar ekki vera að komast í jólabókaflóðið. „Maður hefur verið svo lengi tengdur þessum neyðar- og viðbragðsgeira þar sem markmiðið með ljósmyndun hefur verið að reyna að gera gagn. Það er mikið að gerast og fólk nær ekki alveg utan um þetta. Þetta er í rauninni mitt framlag, að búa til eitthvað sem stendur undir sér. Þetta er ekki aðal vinnan mín, en ég vil að hlutaðeigandi eins og Grindvíkingar og þeir sem vinna í neyðargeiranum í kringum þetta geti átt eitthvað um þennan atburð. Það er fyrst og fremst markmiðið.“
Samtalið við íbúana sem situr eftir
Þegar Sigurður er spurður að því hvað sé minnistæðast í ferlinu hafi verið dagarnir þegar íbúar fengu að sækja verðmæti á 5 mínútum og þegar fólk var að flytja búslóðirnar sínar. Það sem sitji mest eftir hafi verið samtalið við íbúana. „Maður kannski myndaði í 3-5 mínútur og spjallaði svo í 40 mínútur. Það er það sem ég tek persónulega mest út úr þessu öllu. Og það er að hluta til þess vegna sem mig langaði að koma þessari bók út. Reyna að koma þeim sögum áleiðis og þeirri tilfinningu. Ég er þakklátur að hafa fengið að taka þátt í þessu á þann hátt.“
Sigurður segir alls óvíst hvort önnur prentun fari af stað ef þessi 1000 eintök seljast upp. „En það verður klárlega áfrahald á þessu verkefni þar sem þessi atburður er ekki búinn.“ Aðspurður segist hann muni halda áfram að ljósmynda í kringum jarðhræringarnar, ekki sé hægt að hætta núna. „Ég mun halda áfram að ljósmynda það sem ég kemst yfir. Án þess þó að sleppa að fara í fjölskyldufrí.“
Hægt er að kaupa bókina í vefverslun hjá Sigurði Ólafi sem finna má hér og fá heimsent. Þá má líka kaupa bókina bæði í Kvikunni menningarhúsi og í Vélsmiðju Grindavíkur.
Sigurður verður í Kvikunni á morgun, miðvikudaginn 23. október frá 10:00 í kaffispjalli við gesti að ræða bókina.
Sigurður Ólafur ásamt Guðna Oddgeirssyni vinna við að setja sýninguna upp á Festisplaninu.
Einstök ljósmyndasýning með Þorbjörn í baksýn.