Fréttatilkynning frá Grindavíkurnefnd

  • Fréttir
  • 22. október 2024

Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ hefur tilkynnt opnun Grindavíkur frekar en verið hefur. Gert er ráð fyrir að innakstur verði hindrunarlaus inn í Grindavík frá og með 21. október 2024 kl. 06:00.  

Grindavík á fyrsta almannavarnarstigi  
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað þann 6. september 2024 að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig og þann 19. sept. sl. gaf Veðurstofa Íslands út nýtt hættumat þar sem hætta er lækkuð á gult stig af appelsínugulu. Það mat Veðurstofunnar var endurnýjað 17. okt. og gildir til 29. okt. að óbreyttu.

Samkvæmt 2. gr. a. laga nr. 82/2008 um almannavarnir lýsir ríkislögreglustjóri yfir almannavarnastigi og eru stigin þrjú, þ.e. óvissustig, hættustig og neyðarstig. Samkvæmt 23. gr. laganna er lögreglustjóra heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk. Valdheimildir lögreglustjóra virkjast á hættu- og neyðarstigi en eiga ekki við á óvissustigi. Samkvæmt lögum um framkvæmdanefndina fer nefndin með framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavíkurbæ í samvinnu við lögreglu.

Mikilvægar öryggisráðstafanir  
Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi til þess að auka öryggi í Grindavík en þær felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun. Þá hefur bæði verið fyllt í sprungur og/eða þær girtar af og álagsprófanir hafa verið gerðar á viðgerðum stöðum. Komið hefur verið upp greinargóðum merkingum og verða ákveðin hættusvæði í bænum merkt sérstaklega. Eftir sem áður getur verið hætta á jarðfalli ofan í sprungur, einkum á opnum svæðum í og við Grindavík sem ekki hafa verið skoðuð sérstaklega.  

Þrátt fyrir að ýmsar öryggisráðstafanir auki öryggi í bænum er rétt að leggja áherslu á að íbúar og gestir dvelji inni á hættusvæði á eigin ábyrgð. Hver og einn verði að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi. Grindavík er ekki staður fyrir börn. 

Fyrirkomulag opnunar 
Sem fyrr segir verður aðgangur inn í Grindavík hindrunarlaus frá 06:00 þann 21. október 2024 og gildir þar til hættustigi kann að vera lýst yfir á ný. Viðbragðsaðilar og vettvangsstjórn verða áfram starfandi með óbreyttum hætti og eftirliti með umferð inn og út úr bænum verður sinnt með rafrænum hætti í öryggisskyni ef til rýmingar kemur. Opnun bæjarins með þessum hætti byggir m.a. á áhættumati sem unnið er og uppfært reglulega sem og hættumati Veðurstofunnar. Mikilvægt er að þau sem leggja leið sína til Grindavíkur virði leiðbeiningar og hafi eftirfarandi hugfast:  


•    Jarðhræringum í og við Grindavík er hvergi lokið og nauðsynlegt að fara að öllu með ítrustu gát;  
•    Áfram verður öflugt eftirlit með mögulegri náttúruvá til að hægt verði að bregðast við breyttum aðstæðum; 
•    Rekstraraðilar, þ.m.t. ferðaþjónustuaðilar, eru hvattir til að uppfæra sínar öryggisáætlanir reglulega og kynna þær ítarlega fyrir starfsfólki og gestum;
•    Uppfært áhættumat, sem m.a. tekur mið af þeim öryggis- og mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til, gefur til kynna að viss áhætta sé enn til staðar innan Grindavíkur og því mjög mikilvægt að fylgt sé leiðbeiningum og aðvörunum í hvívetna;
•    Aðstæður geta breyst hratt og nauðsynlegt getur reynst að rýma bæinn og nágrenni með skömmum fyrirvara og loka á nýjan leik;  
•    Lýsi ríkislögreglustjóri yfir hættustigi eða neyðarstigi verður ákvörðun um aðgangsstýringu í höndum lögreglustjóra; 
•    Grindavík er ekki staður fyrir börn og börn eiga alls ekki að vera eftirlitslaus í bænum;
•    Ekki er mælt með að gist sé í bænum;
•    Samkvæmt áhættumati er mjög há áhætta fyrir ferðafólk í Grindavík og ferðafólk því varað við að fara inn í bæinn;
•    Reynist nauðsynlegt af öryggisástæðum verður unnt að grípa til rýminga og lokunar á nýjan leik, t.d. ef breytt áhættumat gefur tilefni til;  
•    Einstökum svæðum innan bæjarmarkanna kann að verða lokað fyrir umferð ef nauðsyn reynist.  
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 15. apríl 2025

Vorferđ FebG í Ţórsmörk 21.maí 2025

Fréttir / 15. apríl 2025

Alli á Eyri og páskaegg í Kvikunni

Fréttir / 14. apríl 2025

Sundlaugin lokuđ í dag - Opiđ á morgun

Fréttir / 4. apríl 2025

Opiđ til Grindavíkur

Fréttir / 3. apríl 2025

Ađgengi takmarkađ til Grindavíkur

Fréttir / 1. apríl 2025

Eldgos hafiđ rétt norđur af Grindavík