Í morgun mættu þeir Árni Þór Sigurðsson og Gunnar Einarsson, sem skipa framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur, ásamt Guðnýju Sverrisdóttur, í Kvikuna. Undanfarna miðvikudaga hafa góðir gestir mætt og spjallað við íbúa um hin ýmsu mál. Margir mættu í kaffispjallið í morgun og eftir smá inngang hjá Árna Þór um störf nefndarinnar fengu íbúar að spyrja út í málefni Grindavíkur.
Beðið eftir leigusamningi við Þórkötlu
Húsnæðismálin í Grindavík brunnu á fólki en nefndin var m.a. spurð um á hverju leigusamningur við íbúa strandaði. Margir væru orðnir langeygir eftir að fá umgengnisamning um þá fasteign sem búið væri að selja til Þórkötlu. Slíkur samningur væri mikilvægur til að halda tengslum við Grindavík.
Þá kom Árni Þór inn á lokunarpóstana og beiðni bæjaryfirvalda um að leggja þá niður í núverandi mynd. Það væri til skoðunar hvernig best væri að koma því í kring samhliða eftirliti innan bæjarins.
Fram kom á fundinum óánægja með lög um uppkaup. Kaupa hefði þurft upp fasteignir allra sem óskuðu eftir því, hvort sem það væru einstaklingar eða fyrirtæki. Bent var á að lengja þyrfti frest til uppkaupa og gefa íbúum lengri frest en til áramóta að selja Þórkötlu húsin.
Kvikan er sem stendur opin virka daga frá 10:00 - 16:00 en lokað er á föstudögum og um helgar.
Næstu miðvikudaga er von á góðum gestum eins og fulltrúa úr þjónustuteyminu, slökkviliðsstjóra og fulltrúum úr bæjarstjórn Grindavíkur, sem verður auglýst þegar nær dregur.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Kvikunni í morgun.