Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, afhenti Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur lykla að tveimur íbúðum í gamla Kópavogsbúinu við hátíðlega viðhöfn miðvikudaginn 10. júlí. Kópavogsbúið er elsta húsið í Kópavogi, reist á árunum 1902 til 1904 og er eitt fárra steinhlaðinna húsa sem enn standa.
Lionsklúbbur Kópavogs og Kópavogsbær gerðu samninga árið 2021 um standsetningu íbúðanna og hefur Kópavogsbær, sem er eigandi hússins, stutt framtakið með fjárframlögum. Lionsfélagar hafa unnið þrekvirki með því að hafa staðið fyrir glæsilegri endurbyggingu hússins undanfarin þrjú ár og ákváðu þeir að veita Grindvíkingum forgang að íbúðunum og að leigja þær út á sanngjörnu verði. Íbúðunum hefur nú verið úthlutað til aðila sem voru í brýnni þörf fyrir húsnæði. Lionsfélögum eru færðar kærar þakkir fyrir þá aðstoð og hlýju sem þeir sýna Grindvíkingum með þessu vinarbragði.
Á myndinni eru Fannar Jónasson, Ásdís Kristjánsdóttir og Ómar Þorsteinsson, formaður Lionsklúbbs Kópavogs.