Pistill bæjarstjórnar 9. apríl, 2024.
Heil og sæl góðir Grindvíkingar
Bæjarstjórn fundar enn vikulega og fjallar um ýmis málefni þar á meðal lögbundin verkefni
sveitarfélagsins sem virðist lítilvæg í samhenginu en eru engu að síður nauðsynleg
stjórnsýslunni.
Við höfum orðið vör við ákall íbúa um að endurvekja pistlana sem við sendum vikulega en í
ljósi þess að þeir fengu ekki eins mikinn lestur og vonir stóðu til munum við fækka þeim og
stefnum á að senda 1-2 í hverjum mánuði. Pistlunum er ætlað að upplýsa um verkefni
bæjarstjórnar og þær upplýsingar sem við höfum hverju sinni. Við viljum benda á að ennþá
erum við að taka fyrirspurnum beint til okkar í gegnum netfangið bf@grindavik.is auk þess
sem við tökum á móti spjalli á förnum vegi og símtölum frá þeim sem það kjósa.
Nú hefur nýjasta eldgosið mallað í dálitla stund og halda varnargarðarnir blessunarlega
hlífðarskildi yfir sveitarfélaginu okkar. Vor er í lofti og veður fallegt sem gerir bæjarfélagið
okkar enn fallegra og bjartara. Mikið var ánægjulegt að sjá líf kvikna í kringum höfnina og er
það vissulega fagnaðarefni að skip sigli inn í Grindavíkurhöfn sem er samkvæmt hlutlausu
mati bæjarstjórnar besta höfnin á landinu.
Mörg verkefni eru í vinnslu og viljum við nota þennan pistil til að dreypa létt á eftirfarandi
málefnum.
Jarðkönnunarverkefni og sprungufyllingar. (Verkefni Almannavarna)
Fasi 1 og 2 er að mestu lokið, en fasi 3, og 4 jarðkönnunar eru í vinnslu, þar ræðir um
verkefni sem snúa að skönnun utan vega, það er innan lóðamarka húsnæða og á opnum
svæðum. Verkefnið er í höndum almannavarna og verkfræðistofa, en við bíðum eftir
niðurstöðum úr þessum hlutum könnunarinnar til að vera betur upplýst um stöðuna með tilliti
til uppbyggingu, umfangs sprungna og öryggis. Fagaðilar munu svo leggja til hvort og
hvernig má lagfæra til að tryggja öryggi en fram hefur komið að aflögun er slík að þekktar
sprungur hafa breyst og þurfa því nákvæma skoðun.
Verkefnið hefur fengið kynningu hjá bæjarstjórn sem bókaði vegna málsins að setja
jarðkönnun á golfvellinum á Húsatóftum í fasa 2 og bindum við vonir til að mögulegt verði að
spila 18 holur sem fyrst.
Auk þess höfum við óskað eftir að viðgerðir við gatnamótin á Víkurbraut og Dalbraut verði
unnin sem allra fyrst.
Uppkaup á fasteignum. (Verkefni fasteignafélagsins Þórkötlu)
Við viljum benda á að fasteignafélagið Þórkatla er sjálfstætt félag og bjóðum við nýjan
framkvæmdastjóra, Örn Viðar Skúlason velkominn til starfa. Bæjarstjórn Grindavíkur mun
óska eftir fundi með Erni Viðari og stefnum við á virkt samtal og góða samvinnu með
fasteignafélaginu Þórkötlu og stjórnendum þess.
Þar eru ærin verkefnin og eru íbúar orðnir óþreyjufullir að fá svör, er varða
uppkaup, aðgengi að fasteigninni á tímabilinu og viðhald svo dæmi séu tekin en samkvæmt
fréttum félagsins má vænta svara fljótlega.
Allar fréttir og upplýsingar um félagið má finna í eftirfarandi hlekk
https://island.is/v/fasteignafelagid-thorkatla
Meðal upplýsinga á síðunni þeirra eru fréttir, spurt og svarað auk þess sem hægt er að hafa
samband við félagið Þórkötlu í gegnum island.is á þar til gerðu formi.
Fræðslumál
Skólastjóri og deildarstjórar grunnskólans voru boðuð á síðasta fund bæjartjórnar til að fara
yfir með stjórnendum skólans áform um vinnu að aðgerðaráætlun varðandi skólastarfs
Grindavíkurbæjar. Bókaði bæjarstjórn undir þeim lið sérstaklega að samþykkt væri
samhljóða að sofna stýrihóp um heildstæða stefnu og aðgerðaráætlum um málefni
grindvískra barana. Í stýrihópnum verði fulltrúar skólaþjónustu og bæjarstjórnar með aðkomu
fulltrúa frístunda- og menningarsviðs og stjórnenda í leik og grunnskóla og að niðurstöður
vinnunnar skulu liggja fyrir fimmtudaginn 11.apríl, 2024.
Viljum við minnast sérstaklega á að við erum sammála um að skólastarf grunnskóla er einn
af máttarstólpum hvers samfélags auk þess að vera lögboðin þjónusta. Okkur er öllum mikið
í mun að vanda vel þá vinnu sem snýr á málefnum menntunar barna og grunnskólans.
Verkefnið er fjölþætt þar sem bæjarstjórn þarf að hafa í huga lögboðin verkefni sveitarfélaga,
rekstur og kostnað, farsæld barna og mannauð grunnskólans.
Við höfum lagt upp með að unnin verði stefna og aðgerðaráætlun sem muni fela í sér
stuðningsáætlanir við skóla, kennara, félagsmiðstöðvar og íþróttafélaga sem taka við
nemendum frá Grindavík, áætlun sem snýr að skólastarfi nemenda með lögheimili í
Grindavík og síðast en ekki síst áætlun og stuðning við starfsfólk Grunnskólans.
Við bindum miklar vonir við að vinnan verði öllum til heilla.
Húsnæðisteymi
Mikil vinna er í gangi og hefur verið frá rýmingu í húsnæðisteymi Grindavíkur og eigum við
starfsmönnum teymisins mikið að þakka. En betur má ef duga skal. Það er mikið og stórt
verkefni að koma öllum íbúum Grindavíkur í skjól, heima í Grindavík eða annarsstaðar sem
íbúar kjósa. Í Nóvember voru rúmlega 1.200 heimili rýmd og hefur gengið misvel að leysa
vanda þeirra heimila og gefa upplýsingar til kynna að ekki hafi fengist viðunandi úrlausn fyrir
allan hópinn þar sem framboð fasteigna á þeim sveitarfélögum sem Grindvíkingar sækja í
annar ekki eftirspurninni. Aðgerðir yfirvalda hafa verið til dæmis kaup fasteigna í gegnum
leigufélög, leigutorgið, fyrirhuguð uppkaup og sértækur húsnæðisstuðningur við
Grindvíkinga.
Bæjarstjórn ásamt húsnæðisteymi hefur ítrekað áréttað að ákjósanlegast sé að framlengja
sértækan húsnæðisstyrk til 31.12.2024 til samræmis laga um uppkaup fasteigna og veita
þannig íbúum svigrúm til að ráða ráða sinna. Mögulega hefur það áhrif á sölu fasteigna í
Grindavík og hversu margir kjósa að halda heimili sínu í Grindavík.
Við teljum bankastofnanir sem hafa veitt Grindvíkingum frystingu á afborgunum og vöxtum
hafa sýnt okkur mikla velvild og samhug og vonum að boðið standi til ársloka. Þannig haldist
það í hendur við það svigrúm sem veitt er í lögum um uppkaupin fyrir þá íbúa sem hafa ekki
hug á sölu eða vilja rýmri tíma til að taka ákvörðun.
Fulltrúar Grindavíkurbæjar hafa komið fram með fjölmargar tillögur að lausnum, svo sem að
ríkið taki á leigu fjölbýli sem mögulega væri hægt að framleigja Grindvíkingum, kaupum á
smáhýsum og einingahúsum sem hægt væri að selja eða leigja íbúum líkt og gert var í
málefnum Vestmannaeyja. Þá hefur áhugi og boð um aðstoð við uppbyggingu slíkra
framkvæmda hafa komið frá ýmsum sendiherrum norðurlandanna á Íslandi.
Húsnæðismarkaður á Íslandi er í miklu ójafnvægi og útlit er fyrir skort á íbúðarhúsnæði á
næstu misserum sem er áhyggjuefni allra landsmanna, ekki bara Grindvíkinga.
Verkefnið er okkar allra, þjóðin og við, Grindvíkingar erum og verðum að vera í þessu
saman.
Vísbendingar eru að framboð íbúðarhúsnæðis sé ekki í takt við þörfina, þannig að
umframeftirspurn kemur til með að hafa afleidd áhrif meðal annars á vaxtakjör og þenja
húsnæðismarkaðinn, sem leiðir að öllum líkindum til verðhækkunar á íbúðarhúsnæði um
land allt. Það er því til mikils að vinna fyrir alla íslendinga að unnið sé vel að málefnum
Grindavíkur.
Atvinnuteymi
Atvinnuteymi Grindavíkurbæjar hélt kynningu fyrir bæjarstjórn sl. föstudag. Þar fóru aðilar yfir
drög að aðgerðaáætlun fyrir apríl og maí en í henni er farið yfir verkefni sem teymið leggur til
að verði í forgangi á næstu vikum. Lífleg umræða varð um atvinnumálin og var m.a. rætt um þann mun sem er á aðstæðum
einstakra fyrirtækja í Grindavík.
Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt að nú aflast vel á miðunum og skip eru farin að landa í
Grindavík. Á meðan strangar takmarkanir voru á því hverjir máttu dveljast og starfa í Grindavík
var sáralítil fiskvinnsla í bænum en það hefur breyst á undanförnum vikum og með því hefur
líf í bænum aukist mikið.
En það er hluti fyrirtækja sér ekki fram á að geta starfað áfram í Grindavík. Ýmist er það vegna
þess að húsnæði þeirra er ónýtt eða vegna þess að ekki eru forsendur til starfsemi.
Það er til dæmis ekki við því að búast að fyrirtæki sjái forsendur til þess að klippa hár eða baka
brauð og kökur þegar sárafátt fólk býr í bænum og ferðamenn mega ekki koma þangað. Þessi
fyrirtæki þurfa því aðstoð til að koma upp starfsemi á nýjum stað en ekki virðist vera vilji til
þess hjá ríkinu að kaupa húsnæði þessara fyrirtækja.
Við áréttum að það er fullur vilji til þess af hálfu bæjarstjórnar og atvinnuteymis að tala máli
þessa hóps, en núna stendur yfir vinna á vegum starfshóps fjögurra ráðuneyta sem á að skila
tillögum um stuðningsaðgerðir. Nánari umfjöllun um verkefni starfshópsins og greiningarvinnu
Deloitte má sjá í frétt á heimasíðu bæjarins.
Fjárútlát Grindvikinga
Bæjarstjórn, ásamt Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur
og Félagi eldri borgara sendu frá sér tillögur á yfirvöld að styðja betur við Grindvíkinga í
þeim ólgusjó sem enginn valdi sér að standa frammi fyrir. Þar fórum við fram á að
Grindvíkingar sem eru á leið á fasteignamarkaðinn í kjölfar náttúruhamfara njóti sömu kjara
og fyrstu kaupendur sem eru m.a.:
*Afsláttur af stimpilgjöldum.
*Ráðstöfun á viðbótarlífeyrissparnaði skattfrjálst í útborgun.
*Aðgangur að hlutdeildarlánum.
Yfirlýsing hefur verið send stjórnvöldum en við höfum því miður ekki fengið viðbrögð frá þeim
sem ráða ferðinni á þessum tímapunkti. Við vonum að aðilarnir sem sendu yfirlýsinguna fái
áheyrn eða nái athygli um þetta gífurlega hagsmunamál áður en yfir líkur.
Uppbygging og áætlanir
Bæjarstjórn mun fara í stefnumótunarvinnu um uppbyggingu og setja fram markmið fyrir
stöðu sveitarfélagsins, með tilliti til uppbyggingar, íbúafjölda og veittrar þjónustu.
Markmiðin verða notuð að leiðarljósi um hvert við stefnum, en áætlanir taka mið af stöðu
hvers tíma og munu vera breytilegar eftir aðstæðum hverju sinni.
Lagt verður upp með lifandi vinnuskjal þar sem unnið verður með langtímamarkmið,
markmið til miðlungs tíma og skammtímamarkmið.
Aðgerðaráætlanir, kostir og gallar ásamt kostnaðarmati og niðurstöðum jarðkönnunar skulu
vera hluti af verkefninu sem leiðir af sér hraðari uppbyggingu og framtíðarplan sem er
raunhæft.
Og að lokum…..
Bæjarstjórn vill senda bestu kveðjur til allra Grindvíkinga og minna á að saman mynduðum
við samfélagið sem sem söknum og saman munum við gera Grindavík aftur frábært og
eftirsóknarvert bæjarfélag.
Verkefnið verður að vera okkar allra, hvaða ákvarðanir sem kunnu að vera teknar hjá
hverjum og einum Grindvíkingi breytir það ekki því að við erum öll samfélagið.
Tölum fallega og hlýlega um Grindavík og Grindvíkinga, það verður samfélaginu og
sveitarfélaginu til hagsbóta.
Í blálokin viljum við upplýsa að hafin er vinna fyrir stöðufund fyrir íbúa Grindavíkur og munu
nánari upplýsingar um það verða birtar síðar. Kveðja,
Bæjarstjórn Grindavíkur