Mótun fleiri tillagna um stuđning viđ atvinnulíf í Grindavík

  • Fréttir
  • 8. apríl 2024

Á liðnum mánuðum hafa stjórnvöld brugðist við með ýmsum hætti við þeim aðstæðum sem eru í Grindavík vegna þeirra náttúruhamfara sem þar eru. Mestu munar þar um kaup á íbúðarhúsnæði fjölskyldna í bænum. Einnig hafa verið samþykktar ýmsar aðgerðir sem snúa að stöðu fyrirtækja í bænum.

Vilji stjórnvalda stendur til þess að viðhalda virkni og verðmætasköpun í Grindavík með áframhaldandi atvinnustarfsemi, að því marki sem kostur er og öryggissjónarmið leyfa. Áframhaldandi starfsemi myndi fela í sér jákvætt hreyfiafl fyrir bæjarfélagið í heild, enda mun bærinn ekki byggjast upp að nýju nema þar séu bæði fólk og fyrirtæki. Takmörkuð atvinnustarfsemi kann að vera ákjósanlegt fyrirkomulag á meðan bæjarbúar og stjórnvöld meta stöðuna til framtíðar með tilliti til áhættu. Margt bendir þó til þess að þessi leið geti verið áhættusöm einkum vegna þess að mikil og langvarandi óvissa er um áframhaldandi virkni jarðhræringa á svæðinu, hættuástand hefur skapast vegna sprungukerfa sem ekki hafa verið könnuð til hlítar og innviðir í bænum eru illa laskaðir. Samþykkt voru lög sem heimila rekstrarstuðning við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir umtalsverðu tekjufalli. Þá er nú einnig heimilað að veita þeim stuðning við greiðslu launa svo viðhalda megi ráðningarsambandi þegar starfsemi fyrirtækja liggur niðri. Skatturinn hefur nú einnig heimildir til að fresta greiðslum opinberra gjalda. Fasteignagjöld hafa verið felld niður hjá stórum hluta fyrirtækja í Grindavík. Enn er hins vegar ýmislegt sem kemur til álita um stuðning við fyrirtæki í Grindavík enda staða þeirra flestra afar erfið. Á vegum Grindavíkurbæjar og ríkisins eru ýmsar aðgerðir í gangi sem eiga að styðja við viðleitni fyrirtækja til að koma í gang rekstri, þó í sumum tilfellum takmarkaður sé.

Forsætisráðherra skipaði þann 19. febrúar sl. starfshóp forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, menningar- og viðskiptaráðuneytis og matvælaráðuneytis um atvinnulífið í Grindavík, kortlagningu þess og aðgengi. Starfshópurinn hefur með ýmsum hætti kynnt sér málefni er varða fyrirtæki í Grindavík. Nú þegar hefur starfshópurinn kynnt ríkisstjórn ýmis atriði sem koma má til betri vegar. Þá hefur starfshópurinn lagt til að fengið verði ráðgjafafyrirtæki til að gera kostnaðar- og ábatagreiningu vegna innviða og atvinnulífs í því skyni að aðstoða stjórnvöld við að vega og meta mögulegar sviðsmyndir við uppbyggingu í Grindavík. Ríkisstjórnin hefur fallist á það og að undangengnu örútboði var samið við Deloitte um slíka úttekt.

Deloitte hefur nú þegar hafið vinnu við verkefnið. Starfshópur ráðuneytanna og ráðgjafar hafa nú þegar farið í vettvangsferð til Grindavíkur og átt fundi með forsvarsmönnum atvinnumála Grindavíkurbæjar og eigendum og stjórnendum nokkurra fyrirtækja í Grindavík. Þá eru á döfinni frekari fundir á næstu dögum auk umfangsmeiri söfnunar upplýsinga. Við úrvinnslu og tillögugerð Deloitte nýtur fyrirtækið alþjóðlegrar reynslu og þekkingar Deloitte víðs vegar um heiminn.

Áformað er að Deloitte skili skýrslu sinni 22. apríl nk. Á grundvelli hennar og vinnu starfshóps ráðuneytanna verða mótaðar tillögur ríkisstjórnar um frekari aðgerðir. Þurfi að fá lagaheimildir verði þannig ráðrúm til að fá samþykki Alþingis þar fyrir.

Atvinnuteymi Grindavíkurbæjar hefur átt í góðu samstarfi við starfshóp ráðuneytanna og Deloitte um ofangreinda vinnu og mun kappkosta að tryggja að þau sjónarmið sem varða hagsmuni bæjarins og fyrirtækja í bænum komist ítarlega á framfæri.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 16. maí 2024

Stađa sorphirđu í Grindavík

Fréttir / 3. maí 2024

Landađur afli ađ aukast

Fréttir / 30. apríl 2024

Fótboltinn rúllar af stađ

Fréttir / 29. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 29. apríl 2024

Fréttir / 29. apríl 2024

Styrktarbingó Grindavíkur og Breiđabliks