Óleyfisframkvæmdir í Grindavík
Afgreiðsla umsókna um samþykkt óleyfisframkvæmda
Á undanförnum vikum hefur skipulags- og umhverfissviði Grindavíkurbæjar borist beiðnir frá fasteignaeigendum um skráningu á stækkun húsa sem voru framkvæmdar án þess að framkvæmdaraðilar færu í gegnum lögbundið ferli til að fá byggingarleyfi. Þessar framkvæmdir eru í daglegu tali nefndar óleyfisframkvæmdir.
Þegar kemur að óleyfisframkvæmdum hefur byggingarfulltrúi þau þvingunarúrræði sem kafli 2.9 í byggingarreglugerð kveður á um. Í ljósi þess ástands sem nú er í Grindavík og uppkaupafrumvarps ríkisstjórnar Íslands um íbúðarhúsnæði hefur verið ákveðið að beita ekki þeim þvingunarúrræðum sem byggingarreglugerð kveður á um. Þess í stað er hér að neðan kynnt það verklag sem unnið verður eftir til að reyna, eftir því sem unnt er, að koma til móts við fasteignaeigendur í Grindavík. Um tímabundið verklag er að ræða til að flýta afgreiðslu mála sem venjulega geta tekið umtalsverðan tíma í stjórnsýslu byggingar- og skipulagsmála.
Þrátt fyrir það verklag sem hér er kynnt, er ekki hægt að staðhæfa að óleyfisframkvæmd verði samþykkt af hálfu sveitarfélagsins. Með hverri ákvörðun þarf að horfa til grenndarhagsmuna, umfangs og fyrirliggjandi stefnu í skipulagi sveitarfélagsins.
Minnisblað um óleyfisframkvæmdir
Frekari upplýsingar og fyrirspurn má óska í gegnum póstfang byggingarfulltrúa, bygg@grindavik.is