Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur heimilað Grindvíkingum og þeim sem starfa í Grindavík að dvelja og starfa í bænum. Í tilkynningu sem send var á fjölmiðla kemur fram að lítil sem engin hreyfing er nú á hraunrennsli bæði inn í Svartsengi og eins fyrir ofan Suðurstrandarveg. Það sé mat lögreglustjóra að ekki stafi ógn af hraunrennsli inni í Grindavík við núverandi aðstæður.
Þá sé fylgst vel með hraunrennsli fyrir ofan Suðurstrandarveg sem ógnar ekki veginum eins og staðan er í dag. Fylgst sé vel með mengun inn á merktu hættusvæði.
Í dag sé vindátt hagstæð og ekki ætti að gæta mengunar inn í Grindavík. Ef og þegar hætta er talin á að loftmengun ógni heilsu manna getur komið til þess að aðgengi inn í Grindavík verði takmarkað.
Sjá tilkynninguna í heild sinni hér