Pistill bćjarstjórnar

  • Fréttir
  • 1. mars 2024

Pistill bæjarstjórnar 28.02.2024


Góðan daginn kæru Grindvíkingar

Það er ánægjulegt að hefja vikulegan pistil á því að upplýsa að okkur barst heimsókn frá Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra, á bæjarstjórnarfund í gær. Tilefni heimsóknarinnar var að undirrita samkomulag um stuðning við stjórnsýslu og fjárhag bæjarfélagsins á þessum fordæmalausu tímum og veita okkur stuðning til að sinna skyldum okkar og lögbundnum verkefnum.

Fyrir liggur að ástand innviða í sveitarfélaginu er slæmt í kjölfar jarðhræringa og að tímafrekt og kostnaðarsamt verður að koma þeim í lag. Mannvirki í eigu Grindavikurbæjar eru sum mjög illa farin eða jafnvel ónýt sem erfiðar möguleika okkar til að tryggja að grunnþjónusta geti farið aftur fram í heimabyggð. Með það í huga, auk þess að rekstrarhæfi bæjarfélagsins er ógnað vegna yfirvofandi tekjufalls er samkomulag þetta við innviðaráðuneytið kærkomið og mun veita okkur aðstoð með verkefni næstu mánaða.

Á fundinum voru starfsmannamál bæjarfélagsins einnig til umfjöllunar og sátu meðal annars Karl Björnsson, ráðgjafi, Guðjón Bragason og Anton B. Markússon, lögfræðingar, undir þeim dagskrárlið. Farið var yfir kynningu fagaðila um rekstrargetu sveitarfélagsins út frá mismunandi tekjuforsendum með tillti til yfirvofandi tekjufalls. 

Bæjarstjórn bindur að sjálfsögðu vonir við að fljótlega sjáist ljós í enda ganganna þó útlitið sé dökkt og flókið í augnablikinu. Við hrósum happi að sveitarfélagið var vel rekið og fjárhagslega sterkt þegar ósköpin hófust.

Fræðslumál voru líka til umræðu og sátu Nökkvi Már, sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs, ásamt þeim Jóhönnu Lilju Birgisdóttur yfirsálfræðingi skólaþjónustu og Guðjóni Bragasyni lögfræðingi undir þeim dagskrárlið á bæjarstjórnarfundinum.

Borið hefur á ósanngjörnum umræðum, óánægju vegna skorts á upplýsingum og athugasemdum er varða samskipti bæjaryfirvalda við Skóla ehf. Þannig að farið var yfir gögn og tímalínu samskipta Grindavíkurbæjar, eigenda Skóla ehf. og stjórnenda Heilsuleikskólans Króks og ákveðið hefur verið að deila aðkomu okkar að málinu og upplýsa í eitt skipti fyrir öll:

Bæjarstjórn er öll sammála því að mikil eftirsjá er af mannauði Heilsuleikskólans Króks og ítrekar þakkir til þeirra fyrir vel unnin störf í þágu barna í bæjarfélaginu.

Í upphafi desember var fullreynt að leysa leikskólamál hratt og örugglega en um miðjan mánuðinn tilkynnti eigandi Skóla ehf. að félagið gæti ekki staðið við þjónustu og myndi ekki efna samning utan skólahúsnæðisins að Stamphólsvegi 1, þrátt fyrir að hafa talað fyrir því að leysa málin fyrr í mánuðinum.Töluvert af börnum hafði á þeim tímapunkti ekki sótt leikskóla frá rýmingu og var ákall foreldra hátt um að bæta úr stöðunni.

Tekin var ákvörðun í kjölfarið að framlengja ekki samning við Skóla ehf. og rennur hann út í árslok 2024. Grindavíkurbær greiddi að fullu reikninga til Skóla ehf. út nóvember í góðri trú með tilliti til samskipta um áframhaldandi samvinnu sem því miður varð ekki, þó fullur vilji sveitarfélagsins lægi fyrir. 

Í framhaldi eða þann 21. desember var fundað með skólastjórnendum Heilsuleikskólans Króks þar sem lagt var upp með að öllu starfsfólki yrði boðið starf við safnleikskóla á vegum Grindavíkurbæjar. 

Starfsfólk skólaskrifstofu óskuðu eftir því að funda með starfsfólki til að kynna fyrirætlanir en ákveðið var að ræða málið innanhúss hjá Heilsuleikskólanum Króki án aðkomu Grindavíkurbæjar og var frestur veittur í 6 daga, en sá tími rann út án viðbragða frá starfsfólki Króks.

Fljótlega barst Grindavíkurbæ bréf frá Kennarasambandi Íslands þar sem fram kom að KÍ liti svo á að lög um aðilaskipti ættu við. Í ljósi þeirrar þungu stöðu sem Grindavíkurbær stendur frammi fyrir var það mat bæjarstjórnar að ekki væru forsendur í rekstri sveitarfélagsins að taka yfir allar skuldbindingar einingarinnar Króks innan Skóla ehf.

Eftir töluverðar umræður taldi bæjarstjórn eðlilegast að slíta Skóla ehf. frá samtalinu og hefja nýtt ráðningarsamband við það starfsfólk Króks sem það kysi og væri það byggt á vali hvers og eins starfsmanns Skóla ehf.

Í framhaldinu auglýsti Grindavíkurbær eftir starfsfólki með það að markmiði að tryggja öruggt skjól fyrir öll leikskólabörn úr Grindavík með aðgangi að leikskóla og svara ákalli foreldra.

Frestur til að sækja um starf hjá Grindavíkurbæ rann út en var framlengdur auk þess sem starfsmenn Heilsuleikskólans Króks fengu allir símtal og þau hvött til að sækja um.

Bæjarstjórn virðir ákvörðun starfsfólks Króks og persónulegt val byggt á hagsmunum hvers og eins einstaklings, við óskum öllum starfsmönnum og stjórnendum Heilsuleikskólans Króks velfarnaðar í næstu verkefnum.

Á bæjarstjórnarfundinum voru einnig rædd fræðslumál og framtíð safnskóla. Bæjarstjórn fól skólaþjónustunni að stofna fagráð með það að markmiði að fá álit sérfræðinga í málefnum barna, til að meta kosti og galla safnskóla og hvort bjóða eigi upp á safnskóla fyrir börn með lögheimili í Grindavík á næsta skólaári. Niðurstöður skulu m.a. byggja á því hvað er börnunum fyrir bestu og verða notaðar til að skoða næstu skref og ákvarðanir sem verða vel ígrundaðar og teknar með farsæld barna að leiðarljósi.

Viðvera bæjarfulltrúa í næstu viku verður sem hér segir:

  • Þjónustumiðstöð í Reykjanesbæ: mánudaginn 4. mars á milli klukkan 14:00-15:00 (Hallfríður)
  • Tollhúsið: miðvikudaginn 6. mars á milli klukkan 10:00-11:00 (Ásrún)


Við sendum ykkur áframhaldandi baráttukveðjur og biðjum ykkur að vera vakandi fyrir eigin heilsu líkamlegri og andlegri. Hægt er að leita til þjónustumiðstöðvanna í Reykjavík og Reykjanesbæ varðandi sálræna aðstoð.

Kær kveðja, 

bæjarfulltrúar.


 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 27. mars 2024

Loftgćđi og mengun

Fréttir / 27. mars 2024

Kalt vatn: Stađan eftir 25. mars 2024