Frétt 23. febrúar 2024
Alþingi samþykkti aðfararnótt 23. febrúar lög um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.
Hér má sjá samþykkt lög Kaup á íbúðahúsnæði í Grindavík
Nokkrar mikilvægar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar. Helstu breytingar eru þessar:
1) Frestur einstaklinga sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík til að óska eftir að eignaumsýslufélag í eigu ríkisins á fasteignum sínum er lengdur til 31. desember, sbr. 3. gr. laganna.
2) Við bætist ákvæði í 4. gr. um að eignaumsýslufélaginu er skylt að ganga til samninga við húsnæðissamvinnufélög um kaup á búseturétti. Endurgjald fyrir réttinn, sem rennur til búseturéttarhafa, skal vera 95% af framreiknuðu búseturéttargjaldi búseturéttarhafa. Í nýju ákvæði til bráðabirgða segir að náist ekki samningar um kaup á búseturétti skv. 4. gr. er ráðherra heimilt að styrkja þá búseturéttarhafa sem falla undir ákvæðið um sömu fjárhæð og tilgreind er í ákvæðinu.
3) Forgangsréttur fólks að eignum sínum samkvæmt 5. gr. verður þrjú ár frá kaupdegi.
4) Tekið er fram að eignaumsýslufélaginu verði óheimilt að ráðstafa íbúðarhúsnæði sem háð er slíkum forgangsrétti áður en mat á gildistíma forgangsréttar samkvæmt bráðabirgðaákvæði við lögin hefur farið fram.
5) Bætt hefur verið við 8. gr. laganna nýrri málsgrein, svohljóðandi:
Við einkaréttarlegar ákvarðanir skal félagið hafa til grundvallar gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Þá hefur Ríkisendurskoðun eftirlit með starfsemi félagsins.
Gildissvið laganna breyttist ekki í meðförum þingsins, að frátalinni nýrri grein um búseturéttarhafa. Í nefndaráliti er áréttað að frumvarpinu er ekki ætlað að bæta einstaklingum tjón af völdum hamfaranna sem orðið hafa í Grindavík heldur að gefa fólki kost á að losna undan áhættu sem fylgir eignarhaldi íbúðarhúsnæðis í bænum og taka upp búsetu annars staðar.
Meirihlutinn áréttar sérstaklega í áliti sínu „mikilvægi þess að gætt verði að búsetuöryggi þeirra sem íbúð eiga í Grindavík og eyða þeirri óvissu sem náttúruhamfarirnar hafa haft í för með sér. Nauðsynlegt er að höfð sé hliðsjón af því markmiði við skýringu ákvæðis laganna um að eigandi eigi lögheimili í viðkomandi húsnæði og að vafatilvik verði skýrð í samræmi við það.
Fyrir nefndinni komu ennfremur fram ábendingar um umgengnisrétt seljanda um eignir. Í greinargerð með frumvarpinu segir að ákvörðun þar að lútandi verði verkefni félagsins sem sinna muni umsýslu og rekstri eignasafnsins. Meirihlutinn bendir á að reglugerðarheimild frumvarpsins feli í sér heimild ráðherra til að kveða á um umgengnisrétt seljanda. Meirihlutinn telur heppilegast að það verði gert í góðri samvinnu við seljendur og að jafnframt verði tekið tillit til sjónarmiða þeirra.