Búið er að opna leið um Grindavíkurveg frá Reykjanesbraut að nýrri vegtengingu að Bláa lóninu sunnan varnargarðs. Nýr hluti Bláalónsvegar er allur innan varnargarðsins. Þessi leið er öllum opin en lokað er til Grindavíkur nema þeim sem um mega fara.
Leyfilegur hámarkshraði á Grindavíkurvegi er 90 km/klst. frá Reykjanesbraut að nýja hrauninu (norðan Sýlingafells) sem rann yfir Grindavíkurveginn. Þaðan og að Bláa lóninu er leyfilegur hámarkshraði 50 km/klst. Beygjur á nýju tengingunni að Bláalónsvegi eru margar krappar og þarf að aka með gát þar. Sérstaklega þarf að gæta að sér á veginum þar sem hann liggur yfir nýja hraunið og þar er stranglega bannað að stöðva ökutæki enda er enn mikill hiti í vegi og á svæðinu í kring.
Vegurinn yfir hraunið á Grindavíkurvegi og ný vegtenging frá Grindavíkurvegi að Bláalónsvegi er með malarslitlagi og því líka nauðsynlegt að fara gætilega þess vegna.
Bannað er að leggja ökutækjum í vegkanti á allri þessari leið.
Grindavíkurvegur er lokaður almennri umferð sunnan við nýja vegtengingu að Bláalónsvegi sem sjá má á kortinu.
https://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/grindavikurvegur-opinn