Engin skýr merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborð skv. nýjustu gervitunglamyndinni sem birt er á vef Veðurstofu Íslands. Myndin sem er síðan í gærkvöldi (31. október), sýnir 5-6 sm aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn. Sama aflögunarmerki sést á GPS mælingum á svæðinu og nýjustu GPS-mælingar frá því í morgun sýna að hraði aflögunarinnar er svipaður síðustu daga. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Þegar jarðskjálfta-, aflögunar- og gervitunglagögn eru túlkuð saman er ályktað að kvikuinnskot sé til staðar á um 4 km dýpi norðvestan við Þorbjörn. Staðsetning kvikunnar er óbreytt frá því í gær þegar vart var við kvikuhreyfingar á svæðinu. Þá um morguninn hófst ör skjálftavirkni sem var merki um kvikuhlaup og stóð það yfir í um 2 klukkustundir. Nýjustu gögn gefa ekki til kynna að kvika sé að brjóta sér leið grynnra í jarðskorpunni en staðan getur hinsvegar breyst hratt.