Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, sveitarfélögin á Suðurnesjum og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa, í samvinnu við ríkislögreglustjóra ákveðið að formfesta svæðisbundið samráð gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum. Markmið þessa verður að bæta enn frekar þjónustu við þolendur ofbeldis á Suðurnesjum og styrkja svæðisbundið samstarf gegn ofbeldi. Leitað verður eftir samstarfi við aðra lykilaðila á svæðinu.
Samstarfið mun fela í sér margvíslegar aðgerðir, og er stefnt að fyrsta formlega samráðsfundi vettvangsins í lok ársins. Jafnframt hefur verið tekin ákvörðun um að opna þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum sem hefur hlotið vinnuheitið Velferðarmiðstöð Suðurnesja í byrjun næsta árs.
Velferðarmiðstöð Suðurnesja
Velferðarmiðstöðin verður þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis þar sem fólk af öllum kynjum getur sótt sér margvíslega þjónustu á einum stað. Markmiðið er að auka þjónustu við fólk sem beitt hefur verið ofbeldi og að gera aðgengilegri þá þjónustu sem þegar er í boði. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur veitt verkefninu 18, 8 milljóna króna styrk sem tryggja á reksturinn fyrsta árið og er undirbúningur Velferðarmiðstöðvar formlega hafinn.
Aukin áhersla á afbrotavarnir á landsvísu
Svæðisbundna samráðið er hluti af auknum áherslum dómsmálaráðuneytisins á afbrotavarnir þ.m.t. fræðslu og forvarnir. Hefur ríkislögreglustjóra verið falin samhæfing þess efnis meðal lögregluembættanna á landsvísu, þar á meðal á Suðurnesjum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur einnig falið ríkislögreglustjóra ábyrgð á aðgerð C.6. Stuðningur við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi í þingsályktun um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019 til 2022.
Ríkislögreglustjóri leggur verkefnunum lið með verkefnisstjórn og hefur Sigþrúður Guðmundsdóttir verið ráðin sem verkefnisstjóri svæðisbundna samráðsins á Suðurnesjum og opnunar Velferðarmiðstöðvar.
Meðfylgjandi myndir eru frá afhendingu styrks til Velferðarmiðstöðvarinnar, á þeim má annars vegar sjá Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjanesbæjar taka við styrknum úr hendi Guðmundar Inga Guðbrandssonar félags- og vinnumarkaðsráðherra og hins vegar Heru ásamt Sigþrúði Guðmundsdóttur verkefnisstjóra hjá ríkislögreglustjóra og Guðrúnu Björgu Sigurðardóttur, sviðsstjóra fjölskyldusviðs Suðurnesjabæjar.