Á sjómannadaginn verður formleg afhending á nýsmíðuðum áttæring. Um er að ræða skip eins og forfeður okkar réu á til fiskjar fyrir meira en 100 árum. Áhugamenn í Grindavík undir forystu Ólafs Sigurðssonar skipstjóra ásamt Sjómannafélaginu í Grindavík standa fyrir smíðinni.
Fréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson hefur sýnt smíðinni mikinn áhuga og tvisvar fjallað um smíðina í sjónvarpsfréttum. Nú síðast í gær. Smíðin á skipinu hófst í janúar og er nú lokið. Áttæringar voru helstu atvinnutæki landsmanna á nítjándu öld fyrir tíma vélbáta. Það eru Hollvinasamtökum áttæringsins að þakka að fjármögnun á smíðinni tókst og skipið er nú fullklárað.
Í forsvari fyrir Hollvinasamtök áttæringsins eru þau Ólafur R. Sigurðsson, Óskar Sævarsson og Marta Karlsdóttir. Þá hefur Gunnar Tómasson unnið náið með þeim og verið bakbeinið í samtökunum. Þeir Ólafur og Óskar segja að unnið hafi verið að fjármögnun og smíði bátsins í um þrjú ár. Um sé að ræða mikilvæga heimild um atvinnusögu Grindavíkur.
Fjallað var um smíðina í nýútkomnu tölublaði Járngerðar sem lesa má í heild sinni hér.
„Þetta voru mikilvægustu atvinnutæki þjóðarinnar og íbúanna í Grindavík sem sóttu björg sína í sjóinn og hefur verið okkar lífsbjörg frá því land byggðist. Við áttum ekki líkan af alvöru áttæringi og þess vegna fórum við út í það að smíða skipið. Þetta er líkan af þeim skipum sem fórust hér á sundinu og sóttu björg í bú og gerðu það að verkum að það var lífvænlegt í Grindavík“ sagði Ólafur í viðtali.
Á sunnudaginn verður formleg afhjúpun á nýsmíðuðum áttæring nánar tiltekið klukkan 14:30. Von er á skipinu til Grindavíkur seinni partinn í dag en áttæringurinn verður staðsettur austan megin við Kvikuna.
Mynd til hægri: Hafliði Már Aðalsteinsson, bátasmiður, ásamt Óskari Sævarssyni og Ólafi R. Sigurðssyni við grind áttæringsins fyrr í vetur.
Lagt af stað í róður árið 1922 eða 1923.
Skipið Björgvin frá Grindavík
Heimildir um áttæringin eru m.a. fengnar úr viðtali við Tómas Þorvaldsson og myndir eru úr safni Gunnars Tómassonar.