Nú stendur yfir dreifing á nýjum tunnum á Suðurnesjum þar sem flokkun við heimili fer úr tveimur flokkum í fjóra. Eftir breytingar verða þrjár tunnur við hvert heimili, ein fyrir pappír og pappa, önnur fyrir plastumbúðir og sú þriðja tvískipt þar sem annars vegar er hólf fyrir blandaðan úrgang og hins vegar lífrænan eldhúsúrgang.
Vegna fjölda fyrirspurna vill Kalka Sorpeyðingarstöð árétta að ekki stendur til að bjóða upp á tvískipta tunnu fyrir pappa/pappír og plast á Suðurnesjum. Eftir breytingarnar sem nú standa yfir munu endurvinnslutunnurnar (pappi/pappír og plast) verða sótt á fjögurra vikna fresti og því er ljóst að rúmmál þessara flokka mun aukast.
Um leið og við óskum íbúum til hamingju með nýju tunnurnar sínar þökkum við einnig fyrir góðar móttökur og hvetjum íbúa til þess að huga að aðstæðum þannig að tunnurnar verði snyrtilegar, öruggar og aðgengilegar fyrir sorphirðuaðila.