Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur fyrsta sunnudag í júní, nema að Hvítasunnu beri upp á þeim degi, þá færist hann yfir á næsta sunnudag þar á eftir líkt og í ár. Dagurinn á sér merkilega sögu og víða fara fram mikil hátíðarhöld í tilefni dagsins en á fáum stöðum jafn vegleg og í Grindavík.
Frá upphafi 20. aldar tíðkaðist að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en þilskipin héldu til veiða eftir vetrarlægi, sem var yfirleitt þriðja eða fjórða sunnudag eftir þrettánda. Sjómannadagurinn í þeirri mynd sem við þekkjum hann, var fyrst haldinn hátíðlegur í Reykjavík og á Ísafirði vorið 1938. Hátíðarhöldin fóru fyrst fram í Grindavík árið 1948. Dagurinn varð þó ekki lögskipaður frídagur sjómanna fyrr en árið 1987.
Í upphafi var dagurinn hugsaður til þess að efla samstöðu meðal sjómanna, bæði yfir- og undirmanna á kaup- og fiskiskipum. Hugmyndin var að nota daginn til að gleðjast, halda á lofti gömlum hefðum og minnast látinna sjómanna. Hátíðarhöldin hafa tekið nokkrum breytingum frá því þau fóru fyrst fram fyrir rúmum 80 árum. Hér í Grindavík er þó haldið fast í hefðirnar.
Framkvæmdir við knattspyrnuvöllinn sameinuðu æskufólkið
Tómas Þorvaldsson rifjaði upp aðdraganda fyrstu hátíðarhaldanna í tengslum við sjómannadaginn í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1989. Hann segir frá því að árið 1946 hafi hópur ungs fólks á vegum Íþróttafélags Grindavíkur (nú Ungmennafélag Grindavíkur) hafist handa við gerð knattspyrnuvallarins í Grindavík. Þessi framkvæmd sameinaði ungmenni og æskufólk úr öllum hverfum bæjarins í sjálfboðavinnu.
Um svipað leyti eða árið 1946 var stofnuð björgunarsveit við Slysavarnardeild Þorbjarnar og tók hún til starfa ári síðar. Þar voru margir vöskustu og duglegustu piltarnir úr starfi íþróttafélagsins einnig meðlimir. Starfið í Íþróttafélagi Grindavíkur og Slysavarnardeildinni Þorbirini var undanfari og aðdragandi þess að árið 1948 var ákveðið í samstarfi við sjómenn að halda upp á sjómannadaginn, en flestir þeirra sem stóðu að félögunum voru sjómenn.
Hátíðarhöld við höfnina, íþróttasvæðið og í Kvennó
Allt vorið var unnið af kappi við undirbúning. Fyrstu hátíðarhöld sjómannadagsins í Grindavík hófust með sameiginlegri göngu frá höfninni í gömlu kirkjuna. Þar flutti sr. Jón Árni Sigurðsson sjómannamessu og Kirkjukór Grindavíkurkirkju söng undir stjórn Svavars Árnasonar.
Dagskráin fór fram með svipuðum hætti í mörg ár. Eftir hádegi var komið saman við höfnina þar sem keppt var í kappróðri á brimróðrabát er Slysavarnardeildin Þorbjörn átti og öðrum sem fékkst að láni úr Garðinum. Í framhaldinu var reipitog giftra og ógiftra kvenna og einnig milli sjómanna og landkrabba. Við höfnina var einnig keppt í naglaboðhlaupi, pokaboðhlaupi, kappbeitingu o.fl. Þá var haldið á nýja íþróttavöllinn og keppt í knattspyrnu.
Dagskránni lauk að jafnaði á íþróttavellinum milli kl. 17 og 18. Um kl. 21 var komið saman í Kvennó, þar sem Tómas Þorvaldsson flutti ávarp, afhent voru verðlaun og tilkynnt um árangur í hinum ýmsu keppnisgreinum. Loks var stiginn dans þar til dagur var á lofti.
Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur árlega í Grindavík frá árinu 1948 eins og áður segir með þremur undantekningum. Árin 1952 og 1987 féllu hátíðarhöld niður vegna slysa á sjó. Árið 2020 féllu hátíðarhöld niður vegna heimsfaraldurs.
Greinin er byggð á grein Tómasar Þorvaldssonar Sjómannadagurinn hátíðlegur haldinn í fyrsta sinn í Grindavík 1948 er birtist í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1989.
Boðhlaupi á skólalóðinni þar sem sést í skólann og Axel Andrésson stendur við skólabygginguna
Reiptog á skólalóðinni þar sem Axel Andrésson stjórnaði ýmsum leikjum, hann er maðurinn með hattinn, sem lyftir höndunum yfir miðlínunni (Axel kom til Grindvíkur á hverju vori í gamla daga og var með íþrótta- og leikjanámskeið fyrir börn og unglinga í Grindavík og var kallað "Axelskerfið")
Æfing björgunnarsveitarinnar með fluglínutækin
Kappróður á brimbátum á árunum 1948-1951
Skrúðganga þegar hún kemur niður aðalgötuna (Víkurbrautina)
Fyrsta skrúðgangan, 1948 – frá höfninni í kirkju. Myndin er tekin á veginum þar sem verslunin Bára var til húsa og þær bygginar standa nú í dag.
Þessi sveit keppti lítið breytt í mörg ár fyrir m/b Grindvíking og vann róðrabikarinn til eignar á sjómannadaginn 1951, en bikarinn var gefinn af Hraðfrystihúsi Grindavíkur. Á myndinnni eru, talið frá vinstri: Haukur Guðjónsson, Pétur Guðjónsson, Guðmundur Þorsteinsson, Þorvaldur Kristjánsson, Hermann Kristinsson, Guðmundur Guðjónsson og Arent Arnkelsson.
Forsvarsmenn fyrstu sjómannadagshátíðahaldanna í Grindavík 1948; Tómas Þorvaldsson, Gnúpi (t.v.) og Magnús Guðmundsson, Hellum.