Fjölmennasta útskrift Fisktćkniskóla Íslands frá upphafi

  • Fréttir
  • 30. maí 2022

Það var hátíðleg stund í Gjánni í Grindavík þann 25. maí s.l. en þá fór fram glæsileg útskrift fjölmennasta nemendahóps sem lokið hefur námi frá Fisktækniskóla Íslands. Alls luku 53 nemendur formlegu námi frá skólanum á vorönn. Segja má að þessi athöfn hafi verið þriðja og síðasta útskrift vorannar, en fyrr í mánuðinum hafði farið fram hátíðleg athöfn í höfuðstöðvum Marel í Garðabæ, þar sem sjö nemendur fengu afhent skírteini sín sem Vinnslutæknar og deginum áður luku níu nemendur námi í Fiskeldistækni á Bíldudal. Sérlega ánægjulegt var að meðal útskriftarnemenda voru fimm nemendur sem útskrifuðust úr Veiðarfæratækni (áður netagerð), skólinn sinnir kennslu faggreina í veiðarfæratækni en það er enn sem áður löggild iðngrein. Einnig hófst á ný kennsla í smáskipanámi sem Fisktækniskólinn hafði reyndar áður kennt um árabil en vegna uppfærslu á námskrá hafði verið nokkurt hlé á því að skólinn hafi getað boðið uppá það nám.

Við athöfnina í Grindavík rakti skólameistari í stuttu máli aðdraganda að stofnun Fisktækniskóla Íslands skólans, en nú eru 10 ár frá því fékk starfsleyfi sem framhaldsskóli og hafa um fjögur hundruð nemendur lokið formlegu námi frá skólanum á þessum tíu árum. Framtíðin er björt og byggir á þessum grunni sem hefur mótast vel til á þessum fyrsta áratugi. Fisktækniskólinn býður fjölbreytt tækninám á framhaldsskólastigi þar sem fyrst ber að nefna Fisktæknibraut; tveggja ára hagnýtt nám sem er byggt upp sem önnur hver önn í skóla og hin í vinnustaðanámi. Þá er leitast við að bjóða nemendum upp á val um vinnustað með hliðsjón af áhugasviði hvers og eins t.d. sjómennsku, fiskvinnslu eða fiskeldi.

Í framhaldinu eru fjórar spennandi brautir í boði undir sameiginlegu yfirskriftinni Haftengd auðlindatækni. Fyrst má nefna Fiskeldistækni en fiskeldi er í miklum vexti, hvort sem er á landi eða í sjókvíum og því mikilvægt að vera með vel menntað fólk til að starfa í greininni. Gæðastjórnun er önnur af framhaldsbrautunum, það er braut sem hentar fólki sem þegar starfar í eða stefnir á starf við gæðaeftirlit í fiskvinnslu eða annarri matvælavinnslu. Vinnslutækni er þriðja framhaldsbrautin, það nám er ætlað þeim sem vilja sérhæfa sig í hátæknibúnaðinum sem notaður er í fisk- og matvælavinnslu. Vinnslutæknir sinnir stillingum á hugbúnaði og vélbúnaði og hefur umsjón með því að taka út öll helstu gögn úr hugbúnaði til að geta unnið einfaldari útreikninga fyrir skýrslugerð og upplýsingagjöf t.d. varðandi gæði, nýtingu og afköst í matvælavinnslu. Síðust en alls ekki síst er Haftengd nýsköpun – Sjávarakademía sem þjálfar frumkvöðla á sviði haftengdrar nýsköpunar og hentar fólki sem hyggst stofna fyrirtæki innan bláa hagkerfisins eða er með viðskiptahugmynd sem það vill þróa. Áhersla er á leiðtogafærni, nýsköpun og markaðsmál.

Veiðarfæratæknin er svo eins og áður sagði löggild iðngrein þar sem Fisktækniskólinn býður uppá kennslu faggreinahluta námsins.

Alls stunduðu 150 nemendur nám á fimm brautum við skólann síðastliðinn vetur. Fastir starfsmenn voru 11, en auk þeirra var fjöldi verktaka sem sinnti stundakennslu. Kennt var á alls fimm stöðum á landinu auk Grindavíkur, en skólinn hefur frá stofnun haft það að markmiði að námsbrautir skólans séu í boði sem víðast –og þá í samstarfi við fræðsluaðila, stofnanir og fyrirtæki sem sérhæfa sig í veiðum, vinnslu og fiskeldi á hverjum stað.

Að lokinni afhendingu skírteina, fluttu fulltrúar kennara stutt ávörp, en útskriftinni lauk síðan með kaffisamsæti.

Opið er fyrir innritun og tekið á móti nýjum umsóknum um skólavist vegna haustannar 2022


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!