Vísindaveisla í Grindavík – fjör og frćđi fyrir alla fjölskylduna

  • Fréttir
  • 10. maí 2022

Vorið er komið og það þýðir Háskólest Háskóla Íslands rúllar af stað um landið og verður stödd í Grindavík dagana 12.-14.maí með fjölbreytta dagskrá í boði. Haldnar verða kennarasmiðjur og námskeið fyrir grunnskólanemendur, en dagskránni lýkur svo með sannkallaðri vísindaveislu fyrir allt samfélagið í Kvikunni, menningarhúsi Grindavíkinga, laugardaginn 14.maí kl.12-16. Þar býðst fjölskyldumeðlimum á öllum aldri að kynnast undrum vísindanna með gangvirkum og lifandi hætti í gegnum fjölbreytt tæki, tól og smiðjur. Verið hjartanlega velkomin – enginn aðganseyrir!

Megin áherslan í starfi Háskólalestarinnar er á að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl við landsmenn á öllum aldri. Í áhöfn lestarinnar eru kennarar og nemendur við Háskóla Íslands, sem flestir hverjir eru líka leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins.

Föstudaginn 13.maí mun nemendum í 9. og 10.bekk í Grunnskólanum í Grindavík bjóðast námskeið um flest allt milli himins og jarðar, þar sem fjallað verður um eldfjöll, töfra ljóss og lita, orkuskipti, vindmyllur, efnafræði, forritun með skynjurum og föndri, sjúkraþjálfun, dulkóðun og japanskir menningarheimar skoðaðir.

Auk námskeiðanna fyrir unga fólkið verður sú nýjung í Háskólalestinni að þessu sinni að sérstakar kennarasmiðjur verða í boði fimmtudaginn 13.maí fyrir alla kennara á Suðurnesjum. Vísindasmiðja Háskóla Íslands hefur undanfarin ár boðið kennurum í fjölbreyttar smiðjur, með áherslu á verklega fræðslu og tilraunir. Mikil eftirspurn hefur verið eftir endurmenntun af þessu tagi og nú verða valdar smiðjur í boði fyrir kennara á landsbyggðinni. Stefnt er á að gera þessa þjónustu að föstum lið í Háskólalestinni.

Háskólestin hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða um allt land og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Það er því alltaf mikið tilhlökkunarefni að hefja ferðina ár hvert með fjölbreytta fræðslu í en allt starf lestarinnar er skipulagt í nánu samstarfi við sveitarfélög og skóla hvers áfangastaðar.

Það má því með sanni segja að tilhlökkun sé í lofti fyrir fjölbreyttri fræðslu Háskólalestarinnar í frábærum félagsskap ungu kynslóðarinnar.


Deildu ţessari frétt