Hverfisskipulag Valla- og Stígahverfis – kynning á vinnslustigi

  • Skipulagssvið
  • 23. mars 2022

Grindavíkurbær vinnur að gerð hverfisskipulags fyrir þá hluta bæjarins þar sem ekki er í gildi deiliskipulag. Fyrsti áfangi þeirrar vinnu er skipulag fyrir Valla- og Stígahverfi.

Markmið Grindavíkurbæjar með skipulagsgerðinni er að móta heildarstefnu og samræma ákvæði innan hverfa til að einfalda afgreiðslu leyfisveitinga og gera þær markvissari. Einnig er markmiðið að styrkja og viðhalda gæðum hverfa með skýrum ákvæðum. 
Nú liggur fyrir vinnslutillaga að hverfisskipulaginu þar sem tekið hefur verið mið af umsögnum og ábendingum. Í tillögunni er leitast við að halda lóðarmörkum óbreyttum. Í nokkrum tilvikum er stærð lóða skv. eldra lóðarblaði og í Fasteingaskrá ekki í samræmi við raunverulega stærð þeirra, í öðrum tilvikum liggja lóðarmörk í miðlínu götu eða gögn um afmörkun lóðar liggja ekki fyrir. Í þeim tilvikum er leitast við að afmarka lóðir til samræmis við núverandi notkun. Einnig eru settir samræmdir byggingarreitir og svigrúm gefið til hóflegrar stækkunar bygginga, eftir því sem við á, auk svigrúms til endurbóta og breytinga á húsum. 
Skipulagsnefnd samþykkti á fundi sínum þann 31. janúar 2022 að kynna vinnslutillöguna fyrir umsagnaraðilum og íbúum hverfisins. Að lokinni kynningu verður unnið úr ábendingum og skipulagstillaga auglýst formlega í samræmi við skipulagslög. Þá gefst íbúum aftur færi á að kynna sér tillöguna og senda inn ábendingar, áður en skipulagið er tekið til endanlegrar afgreiðslu.

Hér að neðan er skipulagstillagan, m.a. teikningar þar sem sjá má tillögu að afmörkun lóða og byggingarreita fyrir lóðir við einstaka götur. Einnig er yfirlit yfir skráða stærð lóða og tillögur að breyttri stærð þeirra, ásamt tillögum að mögulegum stækkunum bygginga. 
Íbúar eru hvattir til að yfirfara upplýsingar varðandi þeirra lóð og athuga hvort tillagan samræmist væntingum þeirra og þörfum. Eðli málsins samkvæmt stækka sumar lóðir og aðrar minnka, en það getur m.a. haft áhrif á gjöld lóðarhafa. Mikilvægt er því að íbúar kynni sér gögnin vel og komi á framfæri ábendingum til bæjarins, þannig að endanlegt skipulag verði ásættanleg fyrir íbúa hverfisins. Íbúar eru einnig hvattir til að kynna sér tillöguna í heild en þar er m.a. að finna almenn ákvæði fyrir hverfið. Eins og áður segir er tilgangur verkefnisins að skýra heimildir, auka gegnsæi fyrir íbúa og einfalda afgreiðslu mála fyrir þá sem hyggja á framkvæmdir.
Tillagan er aðgengileg á heimasíðu bæjarins www.grindavik.is. Á þeim tíma er íbúum einnig velkomið að hafa samband við undirritaðan varðandi eldri lóðarblöð og skráningu lóða. 
Frestur til að skila inn ábendingum er til og með 11. apríl 2022. Ábendingar skal senda skriflega á netfangið atligeir@grindavik.is eða til Grindavíkurbæjar og merkja, Hverfisskipulag – Valla- og Stígahverfi, Víkurbraut 62, 240 Grindavík. 

Gögn skipulagstillögu er: 
•    Greinargerð hverfisskipulags
•    Hverfisskipulagsuppdráttur

Hverfisskipulagstillaga – teikningar og lóðatöflur fyrir eintaka götur:
•    Glæsivellir og Ásvellir
•    Árnastígur og Skipastígur
•    Sólvellir, Blómsturvellir og Iðavellir
•    Baðsvellir, Selsvellir og Gerðavellir(48-52)
•    Litluvellir og Hólavellir og Gerðavellir (17-19)
•    Gerðavellir (1-15) og Höskuldarvellir
 


Deildu þessari frétt

AÐRAR TILKYNNINGAR

Fréttir / 29. september 2023

Útboð vegna verkfræðihönnunar sundlaugar

Fréttir / 2. ágúst 2023

Starfsfólk óskast í heimaþjónustu

Fréttir / 15. júní 2023

Umferðaröryggistefna í kynningu

Skipulagssvið / 24. nóvember 2022

Deiliskipulag við Þorbjörn - auglýsing

Skipulagssvið / 31. maí 2022

Nýjar reglur um lóðarúthlutanir

Skipulagssvið / 13. maí 2022

Deiliskipulag fyrir Laut – auglýsing

Skipulagssvið / 2. mars 2022

Skyndilokun á köldu vatni

Fréttir / 16. febrúar 2022

Útboð: Útdraganlegir áhorfendabekkir

Fréttir / 2. desember 2021

Auglýsing um aðalskipulagsbreytingar

Höfnin / 8. nóvember 2021

Beðið eftir varahlutum