Jón Axel semur viđ Crailsheim Merlins

  • Fréttir
  • 19. janúar 2022

 Grindvíkingurinn og landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson hefur samið við Crailsheim Merlins um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í þýsku úrvalsdeildinni.

Jón Axel kemur til liðsins frá Fortitudo Bologna á Ítalíu, þar sem hann hefur leikið frá síðasta hausti. Jón hefur áður spilað í þýsku úrvalsdeildinni en þar lék hann með Fraport Skyliners á síðasta tímabili. Hjá Merlins Crailsheim mun Jón Axel spila aftur fyrir fyrrum þjálfara sinn frá Frankfurt, sem lagði mikið upp úr því að fá Jón Axel til liðs við Crailsheim og styrkja þá í baráttunni.

Jón Axel er annar íslenski leikmaðurinn sem semur við Merlins, en fyrir um áratug síðan lék Njarðvíkingurinn sem sinnir nú forstöðumannastöðu íþróttamannvirkja hér í Grindavík, Jóhann Árni Ólafsson, fyrir þá er þeir meðal annars tryggðu sig upp úr Pro B deildinni í úrvalsdeildina 2009.

Merlins eru sem stendur í 8. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með tíu sigra og sex töp það sem af er tímabili.

Við óskum Jóni Axel til hamingju með samninginn!


Deildu ţessari frétt