Einstakt ár í sögunni

  • Fréttir
  • 29. desember 2021

Bæjarstjórar á Suðurnesjum fara yfir árið í nýjasta tölublaði Víkurfrétta. Það var af nógu að taka hjá Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur enda árið einstakt sögulega séð. Grindavíkurbær var undirlagður vegna eldgossins. Hér fyrir neðan má lesa pistil Fannars:

Þegar árið 2021 gekk í garð litu íbúar Grindavíkur almennt svo á að lítil eftirsjá hafi verið að árinu sem þá var nýliðið. Mikið hafði verið um um jarðskjálfta, landris og mögulega kvikusöfnun svo gripið sé til orða sem oft voru viðhöfð. Þá hafði Covid-faraldurinn haft veruleg áhrif á lífsgæði bæjarbúa sem og annarra landsmanna.

Jarðskjálftahrina
Ekki var þess þó langt að bíða að til tíðinda drægi. Að morgni miðvikudagsins 24. febrúar 2021 lýsti ríkislögreglustjóri yfir hættustigi almannavarna vegna öflugrar jarðskjálftahrinu sem þá gekk yfir á Reykjanesi. Í tilkynningu kom fram að engin merki væru um gosóróa á svæðinu. Fyrsti skjálftinn reið yfir laust eftir klukkan tíu, mældist 5,7 og átti upptök sín nærri Keili. Mesta virknin var bundin við Fagradalsfjall og svokallaðan kvikugang á þeim slóðum. Jarðskjálftar mældust í tugum þúsunda en langflestir þeirra voru litlir. Vísindamenn fylgdust vel með gangi mála og vöktun var aukin á svæðinu. Lögreglan, björgunarsveitir og almannavarnanefndir voru í viðbragðsstöðu. Viðbragðs- og rýmingaráætlanir Grindavíkurbæjar lágu fyrir ef á þyrfti að halda. Haldnir voru kynningarfundir í Kvikunni um ástand mála. Fundunum var einnig streymt og upptökur hafðar aðgengilegar á netinu. Eldfjalla- og jarðskjálftafræðingar frá Veðurstofu Íslands auk fulltrúa frá Almannavörnum  ríkislögreglustjóra og Grindavíkurbæ fóru þar yfir stöðuna og svöruðu spurningum gesta.

Ekki bætti úr skák að rafmagn fór af Grindavík þann 5. mars. Veitufyrirtækinu tókst ekki að koma rafmagni á allan bæinn fyrr en liðnar voru um 9 klukkustundir. Rafmagnsleysi hefur víðtækar afleiðingar en við þær aðstæður sem uppi voru í bæjarfélaginu var um enn alvarlegri atburð að ræða. Varðskipið Þór var á nálægum slóðum ef rafmagnsbilunin yrði viðvarandi, enda hægt að tengja kapal frá skipinu í land.  

Aðfararnótt 7. mars voru skjálftahrinurnar þær öflugustu sem íbúar Grindavíkur höfðu upplifað enda voru upptökin rétt norðan við bæinn. Fáum var svefnsamt enda nötraði jörðin nær stanslaust á tímabili og mældist stærsti skjálftinn 5,0 stig. Um nóttina var boðað til skyndifundar með fulltrúum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands ásamt lögreglunni á Suðurnesjum og bæjarstjóra Grindavíkurbæjar vegna fjölda jarðskjálfta á svæðinu frá Þorbirni að Fagradalsfjalli. Meðal þess sem um var rætt var hvort mögulega þyrfti að rýma hluta bæjarins. Ekki dró til frekari tíðinda að þessu sinni, en viku síðar kom skjálfti sem var 5,4 að stærð og átti upptök sín nærri Grindavík. Sá skjálfti var áberandi sterkur og olli því að munir duttu úr hillum eða færðust úr stað.

Eldgos í Geldingadölum
Eldgosið hófst upp úr klukkan níu að kvöldi 19. mars í Geldingadölum. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli og var talið lítið á mælikvarða jarðfræðinnar. Þó að aðdragandinn að gosinu hafi verið langur hófst það nær fyrirvaralaust. Nokkrir gígar opnuðust á upphafsdögum gossins en virknin einangraðist við einn gíg þegar á leið. Nær 800 ár voru liðin frá því síðast gaus á Reykjanesskaganum og um 6000 ár frá því síðast gaus í Fagradalsfjalli. 
Ekki var talin ástæða til að loka af svæðið við gosstöðvarnar eða gera aðrar ráðstafanir til að hindra för fólks á staðinn.

Það var mikil áskorun fyrir Grindavíkinga og viðbragðsaðila að taka á móti öllum þeim mikla fjölda fólks og bíla sem dreif að strax við upphaf gossins. Samkvæmt teljurum mættu meira en 5000 manns dag hvern á svæðið sem þýðir að um 1500 bílum hafi verið lagt í Grindavík eða nágrenni. Bílaröðin náði frá miðbænum í Grindavík og meðfram Suðurstrandarvegi að gönguleiðum að gosstöðvunum sem er nokkurra kílómetra löng leið. Þá var miklum fjölda bíla lagt á Grindavíkurvegi í námunda við Bláa Lónið. Umferðarstýring og bílastæðamál urðu því meðal fyrstu verkefna sem taka þurfti föstum tökum. Þar var um að ræða samstarfsverkefni lögreglunnar, björgunarsveita, Vegagerðarinnar, landeigenda og starfsmanna Grindavíkurbæjar. Jafnframt þurfti að bæta móttökuskilyrði vegna fjarskipta á gosstöðvunum og kom Neyðarlínan að þeim málum með mjög myndarlegum hætti.

Ofan á þetta bættist við ný áskorun; hertar samkomutakmarkanir vegna fjórðu bylgju Covid-faraldursins. Björgunarsveitir víðs vegar að af landinu komu til aðstoðar og stóðu vaktina mánuðum saman. Að sögn voru um 140 björgunarsveitarmenn mættir til starfa dag hvern, fyrstu dagana. Fremstir í flokki fóru félagar í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík. Verkefnin voru af margvíslegum toga. Mikið var um að forvitnir gestir kæmu illa búnir á svæðið og hvað sem öðru leið gat verið hættulegt að vera á staðnum nema viðhafa fyllstu aðgát. Um náttúruvá var að ræða, gasmyndun, brennheitt hraun, erfiðar gönguleiðir, rysjótt veðurfar ásamt myrkri og kulda að vetri til. Björgunarsveitir og sjúkraliðar sinntu fjölmörgum útköllum og komu hundruðum ferðalanga til aðstoðar. Ef ástæða þótti til greip lögreglustjórinn á Suðurnesjum til þess ráðs að loka tímabundið aðgengi að gosstöðvunum vegna álags eða slæms veðurútlits. 

Um miðjan maí ákváðu Almannavarnir, Grindavíkurbær og aðgerðastjórn vegna eldgossins í Geldingadölum að ráðast í gerð leiðigarðs syðst í Geldingadölum til að minnka líkur á að hraun rynni niður í Nátthagakrika. Einnig var ákveðið að setja upp varnargarða í þeim tilgangi að hefta eða tefja fyrir för hrauntungunnar niður í Nátthaga. Á þessum slóðum eru rafmagnslínur og ljósleiðari og auk þess greið leið fyrir hraunið niður að Suðurstrandarvegi.

Um merkilega tilraun var að ræða og reyndust þessi mannvirki standast áraunina mjög vel. Þó fór svo að hraun tók að renna niður í Nátthaga þar sem dalbotninn fylltist smám saman af hrauni. Að vel athuguðu máli ákvað teymi almannavarna að ekki yrði reynt að byggja varnargarða til að koma í veg fyrir að hraun flæddi úr Nátthaga og í áttina að Suðurstrandarvegi. Ástæðan var sú að mikil óvissa ríkti um það hvort sú aðgerð myndi takast af tæknilegum ástæðum og kostnaður myndi hlaupa á mörg hundruð milljónum króna. Sú hryggilega staða var uppi að eigendur jarðarinnar Ísólfsskála áttu á hættu að missa jörðina og mannvirki undir hraun ef það næði að renna úr Nátthaga og yfir Suðurstrandarveginn alla leið til sjávar. 

Margir lögðu hönd á plóg
Minnst hefur verið á ómetanlegt framlag björgunarsveitanna vegna aðstoðar í tengslum við eldgosið. En það voru fjölmargir aðrir sem áttu sinn stóra þátt í því að ráða fram úr þeim viðamiklu verkefnum og áskorunum sem blöstu við. Embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á Suðurnesjum lögðu fram mannskap, tæki og fjármuni og starfsmenn þessara stofnana stóðu vaktina og sátu fundi almannavarna svo mánuðum skipti. Brunavarnir Suðurnesja lögðu til sjúkrabíl sem staðsettur var á svæðinu og starfsfólk til að manna vaktirnar. Umhverfisstofnun réði landverði til að hafa eftirlit með umgengni og veita upplýsingar á svæðinu sem og að létta undir með störfum björgunarsveitanna. Landeigendur Hrauns og Ísólfsskála komu mjög myndarlega að því að leysa bílastæðamál, gönguleiðir og margt fleira sem laut að umferð gangandi og akandi ferðamanna á svæðinu.

Ríkisstjórnin ákvað að fela hópi ráðuneytisstjóra að leiða nauðsynlega vinnu við undirbúning verndar mikilvægra innviða vegna eldsumbrota á Reykjanesi. Í hópnum sátu m.a. ráðuneytisstjórar sjö ráðuneyta, bæjarstjórar sveitarfélaganna á Suðurnesjum og starfsmenn frá Veðurstofunni, Vegagerðinni, ríkislögreglustjóra og Orkustofnun. Ferðamála- og nýsköpunarráðherra setti á fót starfshóp til að koma með tillögur um uppbyggingu eldgossvæðisins í Geldingadölum til skemmri og lengri tíma, en ferðamálastjóri stýrði starfi hópsins. Þessi fjölskipaði starfshópur hélt fjölmarga fundi um verkefnið og lagði fram ítarlegar tillögur til ráðherra. 

Mikil vinna var í því fólgin að sinna upplýsingagjöf og svara fyrirspurnum innlendra sem erlendra fjölmiðla og annarra áhugasamra aðila um eldsumbrotin. Mæddi þar mikið á starfsfólki Áfangastaðastofu Reykjaness og Reykjanes Geopark. Ferðamálastofa og Safetravel.is veittu einnig mikla aðstoð. Starfsfólk Veðurstofunnar og fjölmargir aðrir úr vísinda- og fræðasamfélaginu voru ávallt boðnir og búnir að leiðbeina og leggja á ráðin varðandi sérhæfð málefni. 

Ríkisstjórn Íslands hélt sinn árlega sumarfund í Grindavík í ágúst. Meðal þess sem um var rætt voru eldsumbrot og jarðhræringar á Reykjanesi, samgöngumál á svæðinu og uppbygging innviða. Jafnframt er rétt að taka fram að einstakir ráðherrar og þingmenn Suðurkjördæmis hafa beitt sér fyrir fjárveitingum og aðstoð vegna eldsumbrotanna og uppbyggingar á svæðinu. Má þar sérstaklega nefna myndarlegt fjárframlag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem ferðamála- og nýsköpunarráðherra beitti sér fyrir. 

Mikil athygli og umfjöllun
Grindvíkingar fengu eldgos í bakgarðinn hjá sér – óumbeðið. Það var gríðarlega stórt verkefni að takast á við þessa náttúruvá og jarðskjálftahrinurnar sem gengu yfir þar á undan. Varla er hægt að bera þetta álag saman við nokkuð það sem íbúar annarra íslenskra sveitarfélaga hafa búið við undanfarna 20 mánuði. 

Bæjaryfirvöldum, starfsfólki bæjarfélagsins og íbúum Grindavíkur tókst með aðstoð mikils fjölda fólks að leysa aðsteðjandi verkefni þannig að með ágætum getur talist. Teymi almannavarna fundaði hvern einasta virka dag – og oft um helgar – svo vikum skipti frá upphafi gossins og reglulega fram undir þetta. Grindavíkurbær lagði fram umtalsverða fjármuni og beina aðstoð vegna viðbragða og kostnaðar vegna eldgossins og styrkti björgunarsveitina Þorbjörn fjárhagslega og verðskuldað fyrir hennar mikla framlag.

Þeir umferðarteljarar sem komið var upp við nokkrar af gönguleiðunum á gosstöðvarnar náðu ekki til allra sem voru þar á ferðinni. Að mati björgunarsveitarfólks má gera ráð fyrir að meira en 800 þúsund manns hafi lagt leið sína á svæðið, sem gerir það jafnframt að fjölsóttasta ferðamannastað landsins árið 2021.

Samkvæmt upplýsingum frá Cision umfjöllunarvaktinni hefur eldgosið í Geldingadölum notið geysilegrar athygli víða um heim. Uppsafnaður fjöldi lestra/áhorfa í öllum tegundum miðla er yfir 175 milljarðar og auglýsingaverðmæti er áætlað vera rúmlega 49 milljarðar króna. Þetta hefur orðið til þess að koma landi og þjóð rækilega á framfæri, til góða fyrir ferðaþjónustuna og fleiri atvinnugreinar. 

Goshrinan sem hófst 19. mars stóð í slétta 6 mánuði og lauk 18. september. Þann 18. desember voru því liðnir þrír mánuðir frá því síðast sást til hraunflæðis úr eldstöðinni við Fagradalsfjall og var það þá gefið út að þessu tiltekna eldgosi væri lokið, hver svo sem þróunin yrði á svæðinu. Þremur dögum síðar hófst hins vegar kröftug jarðskjálftahrina sem er svipuð undanfara eldgossins í Geldingadölum síðastliðið vor. Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi á Reykjanesi enda ekki talið ólíklegt að kvika sé aftur farin að leita upp í jarðskorpuna.

Grindvíkingar hafa orðið óþyrmilega varir við jarðskjálftana að undanförnu og á aðfangadagskvöld reið yfir einn óþægilegasti skjálftinn frá upphafi jarðhræringanna, enda upptökin mjög nærri þéttbýlinu. Munir færðust úr stað og féllu úr hillum. 

Þegar þessi orð eru rituð á öðrum degi jóla er lítið annað til bragðs að taka en að bíða og sjá hverju fram vindur. Suðurnesjamenn eru nú reynslunni ríkari og viðbúnaður er til staðar ef til tíðinda dregur. 

Ég óska íbúum Grindavíkur og öðrum Suðurnesjamönnum gæfuríks og gleðilegs árs. 

Fannar Jónasson
bæjarstjóri Grindavíkur
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!