Mikilvćgt ađ allt samfélagiđ leggi metnađ sinn í menntun unga fólksins

  • Fréttir
  • 22. desember 2021

Guðbjörg Málfríður Sveinsdóttir hefur verið stjórnandi við Grunnskóla Grindavíkur undanfarinn áratug, fyrst sem aðstoðarskólastjóri og síðan sem skólastjóri. Guðbjörg hefur unnið við kennslu og stjórnun í fræðslugeiranum í rúm 40 ár og fer nú á eftirlaun samkvæmt svokallaðri 95 ára reglu, þar sem starfsaldur og lífaldur ná samanlagt 95 árum. Guðbjörg var í viðtali í Járngerði í haust og við birtum nú viðtalið hér á vefnum. 

Guðbjörg  er fædd og uppalin í Reykjavík og bjó um tíma í Vogunum en frá 18 ára aldri hefur hún búið í Njarðvík. Guðbjörg er gift ljósmyndaranum Oddgeiri Karlssyni en þau eiga tvö börn og tvö barnabörn. 

Hvað hefur verið ánægjulegast þegar þú lítur yfir farinn veg?
Þegar ég lít yfir farinn veg er margt sem kemur upp í hugann. Það ánægjulegasta er að hugsa til allra þeirra nemenda og samstarfsmanna sem ég hef unnið með. Það er mjög gefandi að vinna með kröftugu fólki að spennandi verkefnum. Ég hef verið mjög heppin með samstarfsfólk og eignast marga vini og kunningja í gegnum starfið. Ég tel mig heppna að hafa fengið tækifæri til að vinna í Grunnskóla Grindavíkur. Það hefur verið mjög svo ánægjulegt og gefandi að kynnast þessu samfélagi og ég hef reynt að leggja mitt af mörkum til að efla skólastarfið.

Langaði þig alltaf til að starfa á sviði menntamála?
Nei mig langaði ekki alltaf að vinna á sviði menntamála. Hugur minn stefndi að viðskiptatengdu námi og ég er útskrifuð stúdent af viðskiptabraut. En tilviljanir eru margar í lífinu og þegar ég var 18 ára nemi í FS þá var ég beðin að taka að mér kennslu í vélritun og bókhaldi sem valgrein í Njarðvíkurskóla. Þá fór boltinn að rúlla og þessi reynsla varð til þess að ég sótti um nám við Kennaraháskóla Íslands. 

Hvað finnst þér til fyrirmyndar í íslensku skólakerfi?
Það er endalaust hægt að velta fyrir sér íslensku skólakerfi, kostum þess og göllum. Það sem mér finnst til fyrirmyndar eru störf kennara. Það fjölbreytta og óeigingjarna starf sem kennarar sinna finnst mér stórkostlegt. Starf kennara hefur breyst mikið og í dag snýst starfið ekki eingöngu um kennslu heldur líka að ýmsum þáttum varðandi atferli og umönnun  nemenda. Það hefur verið gaman að fylgjast með margskonar kennsluaðferðum og tækninýjungum. Það er svo margt gert í skólakerfinu í dag til að koma til móts við ólíka nemendur. Bæði  miða kennsluhættir að því að allir fái að njóta sín og einnig sú fjölbreytta stoðþjónusta sem veitt er í grunnskólunum.

Hvað mætti bæta?
Grunnskólastarf er aldrei komið á endapunkt, það er alltaf í stöðugri þróun. Það þarf alltaf að vera að endurmeta og skoða árangur og gæði. Hér í Grunnskóla Grindavíkur erum við á hverju ári að skoða störf okkar og meta hvort við séum að gera eins vel og við getum. Mikilvægt er að allt samfélagið leggi metnað sinn í menntun unga fólksins og að það sé mikil hvatning til nemenda um að standa sig vel í námi. Lestur er undirstaða alls og því verður alltaf að vera áhersla á lestur, bæði í skóla og heima. Þar þurfa foreldrar, ömmur og afar að vera góðar fyrirmyndir því það læra börnin sem fyrir þeim er haft.  

Ertu á því að leggja eigi fyrir samræmd próf með þeim hætti sem nú er gert?
Eitthvert samræmt mat tel ég vera ágætt. Formið á samræmdu prófunum hefur verið til umfjöllunar í mörg ár. Ég hallast mest að því að nemendur eigi að fara í samræmt próf þegar þeir eru tilbúnir til þess. Ég tel mikilvægt að það sé ákveðið svigrúm þannig að kennarar og foreldrar komi að ákvörðun um það  hvenær nemandi er tilbúinn í slíkt próf. Það á að vera tekið á einstaklingsforsendum en á ekki eingöngu að miðast við aldur nemenda. 

Heillaráð til þess sem tekur við keflinu?
Þetta er síðasti veturinn sem ég er skólastjóri við Grunnskóla Grindavíkur þar sem ég er að fara á eftirlaun. Efst í huga mínum er þakklæti til allra sem ég hef unnið með, nemenda, starfsmanna og foreldra. Grunnskóli Grindavíkur er góður skóli í góðu samfélagi. Góður grunnskóli er skóli þar sem metnaður ríkir og faglegt starfsfólk leitar  leiða í samvinnu við nemendur og foreldra til að gera gott skólastarf enn betra.  Grunnskólinn skiptir miklu máli í lífi barna, foreldra og alls samfélagsins.  Okkur hefur tekist að vinna frábært starf undanfarin ár. Þetta hafa verið tímar breytinga, ný skólanámskrá með breyttu námsmati, breyttir kennsluhættir og miklar tækninýjungar. Starfsfólkinu hefur svo sannarlega tekist að gera það besta á Covid tímum þegar aðstæður til skólastarfs voru mjög erfiðar. Ég veit að sá sem tekur við keflinu tekur við góðu búi þar sem hér starfar faglegt og kröftugt starfsfólk. Foreldrahópurinn og samfélagið allt vinnur vel með skólanum og svo eru það auðvitað okkar flottu nemendur. Mikilvægt er að allir haldi áfram að vinna saman að uppbyggingu skólastarfsins til heilla fyrir nemendur. 

Ég vil að lokum óska öllum sem koma að starfinu í  Grunnskóla Grindavíkur alls hins besta.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir