Pistill bćjarstjóra: Búseta og lífsskilyrđi

  • Fréttir
  • 16. nóvember 2021

Í nýjasta tölublaði Járngerðar fjallar Fannar Jónasson, bæjarstjóri um nýja skýrslu Byggðastofnunar sem sýnir að Grindvíkingar eru einna ánægðastir með sína búsetu og telja jafnframt að lífsskilyrði sín hafi batnað mikið undanfarin ár. Fannar kemur líka inn á áhrif eldgossins í Geldingadölum en tekið skal fram að þegar pistillinn var skrifaður var eldgosið í fullum gangi: 

Byggðastofnun gaf nýlega út skýrslu sem ber nafnið “Byggðafesta og búferlaflutningar.” Niðurstöður skýrslunnar voru afrakstur spurningakönnunar sem gerð var meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu og í stærri bæjum á landsbyggðinni. Sérstaklega var lögð áhersla á að kanna búsetusögu, byggðafestu og búsetufyrirætlanir íbúa og áhrif atvinnu, menntunar, þjónustu og félagslegra tengsla á búsetufyrirætlanir þeirra íbúa sem könnunin náði til. 

Skýrsla þessi er yfirgripsmikil og fyrir margra hluta sakir áhugaverð. Náttúran og umhverfið eru búsetuþættir sem skipta flesta máli hvað varðar búferlaáform. Ríflega helmingur þeirra sem flutti frá höfuðborgarsvæðinu til bæjarfélaga þar í kring nefndi kyrrð og ró sem þátt í ákvörðun sinni um að flytja.

Á heildina litið eru langflestir þeirra sem þátt tóku í könnunni frekar eða mjög ánægðir með búsetuna í sínu bæjarfélagi og hlutfall þeirra sem eru frekar eða mjög ánægðir er alls staðar yfir 80%. Þegar búsetuánægju er raðað eftir meðaltali eru eru Þorlákshöfn (96%) og Grindavík (94%) efst, en Hveragerði og Akranes koma næst þar á eftir. 

Jafnframt var spurt hvort svarendur teldu lífsskilyrði almennt hafa batnað eða versnað í þeirra bæjarfélagi á síðustu árum. Á heildina litið eru mun fleiri landsmenn sem telja að lífsskilyrðin hafa batnað en ekki versnað á síðustu árum. Talsverður munur er þó á svörum eftir bæjarfélögum hvað þetta varðar, það er þegar horft er til þess hversu hátt hlutfall íbúa telur lífsskilyrði hafa batnað. Í efstu sætum eru Grindavík (83%) og Þorlákshöfn (81%).

Þó að skýrsla Byggðastofnunar hafi nýlega verið gefin út var spurningakönnunin sjálf framkvæmd á síðustu mánuðum ársins 2020. Mánuðina þar á undan höfðu jarðskjálftar og landris valdið usla í Grindavík og mörgum var mjög órótt vegna ástandsins. Í fljótu bragði hefði mátt ætla að þessir atburðir hefðu að einhverju leyti haft áhrif á viðhorf íbúa Grindavíkur til búsetu í bæjarfélaginu. 

Framangreindar niðurstöður sýna engu að síður að íbúar Grindavíkur voru almennt ánægðir með búsetu og lífsskilyrði í bæjarfélaginu þegar könnunin var gerð og ánægjan var sú næstmesta á landsvísu.
Sem betur fer er eldgosið í Geldingadölum ekki stórt í sniðum í samanburði við flest önnur eldgos á Íslandi. 

Ekki eru horfur á að byggðinni í Grindavík standi ógn af hrauninu meðan það heldur áfram að safnast upp í nágrenni við gíginn og lengi þarf gosið að vara til að sú staða breytist.  Grindvíkingar ættu því að geta unað hag sínum vel í framtíðinni, ungir sem aldnir. 

Senn hyllir undir verklok nýbyggingar við Hópsskóla, nýr leikskóli er á teikniborðinu og sama má segja um nýja félagsaðstöðu eldri borgara sem mun stórbæta aðstöðu til tómstundaiðkunar hjá þessum aldurshópi. 

Hlíðarhverfi - nýtt byggingarsvæði fyrir íbúðabyggð er í undirbúningi og síðar á þessu ári verður byrjað að úthluta lóðum þar. Ekki veitir af því mikil eftirspurn hefur verið eftir nýjum lóðum og lóðaframboð orðið mjög takmarkað. Jafnframt hefur verið opnað fyrir umsóknir um lóðir undir atvinnurekstur á iðnaðarsvæðinu við Eyjabakka. 

Grindavík er án efa heitasta bæjarfélagið á landinu um þessar mundir. Fólk kemur í þúsundatali í hverri viku til að skoða eldstöðvarnar og það er líflegt í bænum okkar. Ferðaþjónustan og fleiri atvinnugreinar njóta góðs af. Vonandi verður eldgosið einungis til góðs þegar upp er staðið og hraunið fyrst og fremst stórbrotinn minnisvarði um þann ógnarkraft sem býr í jörðinni undir fótum okkar hér á Reykjanesinu. 

Fannar Jónasson bæjarstjóri
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál