Er tónlistarnám áhugamál, tómstund eđa menntun?

  • Tónlistaskólafréttir
  • 5. október 2021

Úr ræðu skólastjóra við skólaslit 2020

 

Áhugamál og tómstund eiga það sameiginlegt að maður mætir og sinnir því áhugamáli á staðnum. Síðan æfir maður sig inn á milli ef maður vill ná árangri og með æfingu og sjálfsaga er hægt að ná góðum árangri og jafnvel skara fram úr. Hins vegar er ekki kennt eftir námskrá og ekki eru þreytt próf, gerð krafa um heimaæfingar og áhugamál og tómstundir veita almennt ekki starfsmenntun.  

Tónlistarskólar hins vegar starfa eftir lögum um tónlistarskóla, Aðalnámskrá tónlistarskóla sem gefin er út af Menntamálaráðuneytinu og Skólanámskrá sérhvers skóla sem unnar eru út frá fyrrnefndum þáttum. Starfsáætlun og skóladagatal er samþykkt árlega af fræðslunefnd. 

Prófanefnd tónlistarskóla hefur að geyma prófdómara í rytmískum og klassísum hljóðfærum ásamt fræðigreinum. Þegar nemandi hefur náð ákveðinni færni fer hann í áfangapróf sem má líkja við samræmd próf þar sem fyrrnefndir prófdómarar prófanefndar eru kallaðir til. Þeir koma á staðinn og nemendur taka prófin hjá þessum prófdómurum. Á þann hátt eru sömu prófdómarar sem dæma eftir sömu stöðlum prófin um allt land sem gefur okkur mat á því hvernig við stöndum okkur bæði með einkunn og síðan í samanburði við aðra skóla.

Hljóðfæranám og söngur er nám þar sem nemandinn líkt og í grunnskóla byrjar á því að læra að lesa, skrifa og reikna. Því það er jú grunnurinn að öllu námi. Stafróf okkar og reikningsaðferðir eru þó á allt öðru tungumáli en í öðru námi, tungumáli tónlistarinnar. Til þess að æfa okkur í framburði þessa nýja tungumáls nýtum við til þess hljóðgjafa, þ.e.a.s. hljóðfæra eða söngraddar. Við lesturinn þurfum við að geta lesið hvernig verkið er uppbyggt, reiknað út hvernig hrynjandin í verkinu er, komið því frá okkur og túlkað í gegn um hljóðfæri okkar eða söngrödd. Líkt og í öðrum tungumálum er það síðan tækni, æfing, orðaforði og framburður sem tekur við. 

Þetta er krefjandi nám sem krefst mikilla æfinga í því sem hér á undan er sagt og má segja að allir sem hefja þetta nám byrji mállausir, fari síðan að tala með hreim en með æfingum og ástundun minnkar hreimurinn og nemendur öðlast gott vald á tungumáli tónlistarinnar, tjáningu og framburði. Má segja að tónleikar tónlistarskólanna séu á pari við upplestrar- og síðar ræðumennsku annnarra skólagerða þar sem nemendur æfa sig í því að koma fram og tjá sig.  

Skólastigin í tónlistarnámi eru sambærileg og í almennu námi. Fólk byrjar í grunnnámi sem lýkur með grunnprófi sem prófdómari frá prófanefnd dæmir. Þá tekur við miðnám sem lýkur á sama hátt með miðprófi og síðan framhaldspróf sem lýkur á sama hátt með prófdómara en bæst hafa við frá fyrri prófum opinberir tónleikar sem hluti af prófi. Nám upp að framhaldsprófi er hægt að nema í langflestum almennum tónlistarskólum á landinu en einnig hefur bæst við í flóruna MÍT Menntaskóli í tónlist sem í samvinnu við Menntaskólann í Hamrahlíð hefur opnað stúdentsbraut í tónlist.

Að framaldsprófi loknu opnast leiðin í háskólanám í tónlist. Þar er ýmist hægt að fara í tónlistardeild Listaháskóla Íslands eða erlenda háskóla og ljúka bakkalárgráðu, mastersgráðu og doktorsgráðu í tónlistanámi sem tónlistarkennarar eða hljómlistarmenn. Kennarar tónlistarskóla eru ýmist í félagi tónlistaskólakennara sem er innan Kennarasambands Íslands eða FÍH sem er Félag íslenskra hljómlistarmanna sem er innan Bandalags háskólamanna. 

Tónlistarnám er ekki skyldunám og ekki eru allir sem hefja nám á þeirri vegferð að ljúka því námi með doktorsgráðu heldur að  læra grunn til þess að geta notið tónlistar og leikið á hljóðfæri sjálfum sér og öðrum til ánægju. Því hefur okkar skóli mætt með svokölluðu tveggja ára námi þar sem nemandinn getur lært ákveðinn grunn í þeim tilgangi. Þrátt fyrir frábæra kennara, tól og tæki er ekki mögulegt að æfa sig fyrir nemendur frekar en í öðru námi eða íþróttum. 

Hafa ber í huga að hvaða leið sem valin er að árangur námsins, færni  og uppskera liggur hjá nemandanum sjálfum og þeirri vinnu sem hann leggur í námið. Sá skarar fram úr sem leggur á sig. Þeir sem læra þetta tungumál tónlistarinnar uppskera ríkulegan orðaforða sem ekki er gott að tjá eða lýsa á annan hátt m.a. fyrir tilfinningar s.s. gleði, kátínu, ást, hamingju, depurð, trega, sorg, óhamingju o.fl. sem oft á tíðum er erfitt að koma orðum að. Það er því oftar en ekki þar sem orðin enda tekur tónlistin við og kemur þessum tilfinningum frá sér enda hefur það sýnt sig að í flestum þeim mannlegu athöfnum sem haldnar eru hvort heldur sem er í gleði eða sorg eru þær gjarnan haldnar að stórum hluta á tungumáli tónlistarinnar til þess að tjá og skila af sér þeim tilfinningum sem best eiga við hverju sinni. 

 

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 11. september 2024

Heitavatnslaust suđaustast í Grindavík

Fréttir / 8. september 2024

8. tbl. Grindvíkings komiđ út

Fréttir / 3. september 2024

Grindavíkurdćtur og glćpakviss

Fréttir / 2. september 2024

7. tbl. Grindvíkings komiđ út

Fréttir / 16. ágúst 2024

6. tbl. Grindvíkings komiđ út

Fréttir / 15. ágúst 2024

Mánudagskaffi í Reykjanesbć

Fréttir / 14. ágúst 2024

Stuđningur viđ fyrirtćki enn í bođi

Fréttir / 13. ágúst 2024

Atvinnulífiđ af stađ eftir sumarfrí

Fréttir / 12. ágúst 2024

Vel sótt námskeiđ hjá Dale Carnegie