Fimm grindvískir pílukastarar skrifa undir samning viđ One80dart

  • Fréttir
  • 29. apríl 2021

One80dart.is skrifaði á dögunum undir styrktarsamninga við 5 íslenska pílukastara og er þetta í fyrsta skipti í sögu íþróttarinnar hér á landi að samningar af þessu tagi séu undirritaðir. Uppgangur íþróttarinnar hefur verið gífurlegur undanfarin misseri og mikil spenna er fyrir næstkomandi helgi þegar Íslandsmótið í pílukasti verður haldið á Bullseye Reykjavik og sýnt í beinni útsendingu í gegnum YouTube og Facebook síðu Live Darts Iceland

Allir þessir pílukastarar eru búsettir í Grindavík sem kalla má mekka pílukasts á Íslandi en bæjarfélagið á fjöldan allan af Íslandsmeistaratitlum og í lok seinasta árs var pílukastari valinn íþróttamaður Grindavíkur í fyrsta skipti í sögu bæjarins. 

Sigurður Aðalsteinsson, eigandi One80dart.is, sagði þessa samninga vera gerða til að auka veg pílukasts á Íslandi og fá meiri metnað í keppnispíluna í von um að einn daginn muni íslenskur pílukastari keppa á meðal þeirra bestu í heimi.
Með samningunum munu leikmennirnir keppa undir merkjum One80dart.is næstu tvö árin og mun félagið veita þeim verðlaun fyrir árangur í mótum Íslenska pílukastsambandsins ásamt því að sjá þeim fyrir pílum, píluspjöldum og keppnisfatnaði ásamt því að aðstoða þá við keppnisferðir erlendis.

“Það getur verið mjög kostnaðarsamt að ferðast og keppa á þeim mótum sem gefa möguleika á sæti á t.d heimsmeistaramótinu í pílukasti sem Stöð 2 Sport hefur sýnt frá undanfarin ár en vonandi getum við farið að keppa við þá bestu innan fárra ára, stígandinn í keppnispílunni er vaxandi frá degi til dags” sagði Matthías Örn, núverandi Íslandsmeistari í pílukasti við undirritunina í dag. 

Þeir pílukastarar sem skrifuðu undir samning við One80dart.is voru þeir Matthías Örn Friðriksson Íslandsmeistari í pílukasti 2020, Alexander Veigar Þorvaldsson Íslandsmeistari Unglinga 2020, Páll Árni Pétursson tvöfaldur Reykjavík International Games meistari 2020-21, Hörður Þór Guðjónsson og Björn Steinar Brynjólfsson


Deildu ţessari frétt