Krókur 20 ára: Skemmtileg vegferđ og skýr sýn

  • Fréttir
  • 22. febrúar 2021

Heilsuleikskólinn Krókur fagnaði 20 ára afmæli þann 5. febrúar sl. Af því tilefni voru leiskólastýrurnar þær Hulda Jóhannsdóttir og Bylgja Kristín Héðinsdóttir teknar tali. Þær spjölluðu um breytingar innan leikskólasamfélagsins eins og fagmenntun, vistunartíma, starfsumhverfi og vistunarumhverfi barna. Við birtum hérna fyrsta hluta viðtalsins sem var langt og skemmtilegt. 

Þær Hulda og Bylgja segja vegferðina hafa verið alls konar þessi 20 ár sem þær hafa starfað saman á Króki, "en helst  frá því að segja að fyrst þegar við erum að byrja þá eru mjög fáir fagmenntaðir kennarar og fyrstu árin þegar við erum að byrja þá erum við bara einu fagmennirnir.Í dag erum við með 8 fagkennarara á „gólfinu“ eins og við segjum, einn er í oflofi og svo erum við  með 2 nema. Við vorum 11 fagmenntaðar þegar mest var, en miðað við þá stöðu að það vantar leikskólakennara um allt land að þá erum við vel mannaðar hér og miðað við mjög marga og mörg sveitarfélög.  Við finnum mikinn mun þegar það vantar fagfólk, þá er meira álag á þeim sem eru faglærðir. 

Leikskólakennarar koma ekki af himnum ofan
Við áttuðum okkur á því að til að fjölga fagmenntuðum hjá okkur þá byrjuðum við að hvetja fólk til að fara og sækja sér menntun. Flestir þeir sem eru fagmenntaðir hérna byrjuðu sem leiðbeinendur og fór svo í nám. Við þurftum því að búa þá til. Sveitarfélögin þurfa líka að átta sig á því að það þarf að styðja fólk til náms á einhvern hátt og líka skólana. 
Núna er þriðji leikskólinn kominn á dagskrá og við þá opnun þá  minnkar faghlutfall leikskólakennara á stofnanir á einhvern hátt og við því þarf að bregðast. 

Skemmtileg vegferð og skýr sýn
Við byrjuðum með slagorðið „heilbrigð sál í hraustum líkama“ og fundum síðan heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur sem passaði við það sem við vildum gera. Síðan höfum við haldið áfram að sækja okkur „verkfæri“ sem passa okkur eins og Grænfánann og sérstaka samskiptastefnu, svo erum við með Blæ og hjálparhendur. Ég held að okkar sterkasta afl í þessari vegferð hafi verið sú skýra sín sem við höfum alltaf haft. Við höfum alltaf vitað hvert við viljum stefna og höfum ekkert farið út af þeim vegi. Síðan sækjum við okkur verkfæri í leiðinni. Í dag er auðveldara að fá tilbúið námsefni og það auðveldar okkur vinnuna. 

Vistunartíminn lengst 
Á þessari 20 ára vegferð okkar hefur vistunartími barna breyst mikið. Fyrst þegar við byrjuðum þá var leikskólinn tvísetinn sem var frekar flókið og erfitt. Við vorum eitt sinn með skrá yfir 130 börn og það var vel krefjandi. En vistunartíminn hefur lengst og það er líka krefjandi eins og þegar við vorum með hann tvísetinn því börn eru flest í 8 – 8,5 tíma í vistun á leikskóla. Það er mjög langur tími fyrir ung börn. Fyrir nokkrum árum gátum við sagt stoltar frá því að um 40% barna færu frá okkur klukkan 14:00 á daginn. En þetta hefur breyst mikið og við skiljum það, það eru margir foreldrar sem vinna annars staðar. En þetta er umhugsunarvert í samfélaginu almennt og sérstaklega í tengslum við styttingu vinnuvikunnar.

Við teljum það mikilvægt að stytta okkar vinnuviku, eiga börnin það ekki skilið líka? Það er mikið talað um rými barna á leikskóla, að það sé ekki nægjanlegt. Hvernig er að vera í 8 klst á dag í rými sem er ekki nægjanlega mikið fyrir þig auk þess sem hávaðinn er alltaf mikill?
En síðustu ár hefur aðeins fækkað það sem árgangar undanfarin ár eru undir 50 börn. En vandinn með of lítil rými mun lagast með nýjum leikskóla og smærri árgöngum. En það er líka markmið að fækka börnum á leikskóla sem er gott fyrir börn sem þar dvelja. 

Ekki góð hugmynd að vera með sveigjanlegt sumarfrí á leikskóla
Við prófuðum að vera með opið yfir sumartímann sem hentaði bara alls ekki og myndum aldrei vilja fara aftur í að gera það því það bitnaði mest á börnunum. Það kom til okkar móðir sem hafði verið hjá mér þegar ég var að vinna sem kennari á Laut. Hún fór með barnið í frí í júní og kom svo með það í vistun í júlí og barnið bara fraus. Það var ekki að koma inn á sína deild, kennarar barnsins voru í fríi og vinir barnsins líka. Þá sagðist þessi móðir skilja hvað verið væri að meina með að hafa ekki sveigjanlegan sumaropnunartíma. Svo kom það líka í ljós að þegar við vorum með það fyrirkomulag að þá voru örfá börn sem komu. Þá er þetta ekki lengur skóli heldur gæsla. Við gátum bara verið með 2 deildir opnar af fjórum og urðum því að blanda börnum og blanda kennurum. Þannig að þegar þú komst úr þínu frí sem barn þá varstu ekki að koma inn í það umhverfi sem þau þekktu. Þau þurftu aðra aðlögun. Þannig að þegar við breyttum til baka þá voru flestir sáttir með það. 

Þessi umræða kemur alltaf upp og að okkar máti á hún líka að snúast um atvinnulífið. Getur ekki atvinnulífið komið til móts við þá foreldra sem eru með ung börn? Þú ert ekki með ung börn alla þína starfsævi. Það þarf að taka mið af því að koma til móts við þá foreldra sem eru með börn á leikskóla þegar  hann lokar yfir sumarið. Það hentar börnunum best að leikskólinn sé lokaður og að allir fari í frí á sama tíma. Að þetta hafi upphaf og endi alveg eins og annað skólastarf. Því þetta er skóli líka. 


Deildu ţessari frétt