Tilnefningar til íţróttafólks Grindavíkur 2020

  • Fréttir
  • 7. janúar 2021

Tilkynnt var um útnefningu íþróttafólks Grindavíkur þann 30. desember sl. Allar deildir UMFG sem og íþróttafélög með samstarfssamning við Grindavíkurbæ áttu kost á því að tilnefna íþróttafólk, lið og þjálfara úr sínum röðum. Lesa má um þau sem tilnefnd voru hér að neðan en eins og sjá má er mikil gróska í íþróttalífi Grindvíkinga um þessar mundir. 

TILNEFNINGAR TIL ÍÞRÓTTAKONU GRINDAVÍKUR 2020
 

Hekla Eik Nökkvadóttir, 16 ára, tilnefnd fyrir körfuknattleik. Hekla er einstakur leikmaður, leiðtogi innan vallar sem utan sem aðrir leikmenn líta upp til. Hún mætir á hverja æfingu með það að markmiði að bæta sig og verða eins góður leikmaður og hún getur orðið. Hekla er einn sterkasti leikmaðurinn á sínum aldri á landinu og hefur sýnt það í landsliðsverkefnum. Hún var tekin inn í meistaraflokk fyrir síðasta tímabil og fékk strax stórt hlutverk með liðinu, spilaði 12 leiki og skoraði 3 stig að meðaltali. Hekla var í landsliðúrtaki fyrir U16 á árinu. 

Svanhvít Helga Hammer, 44 ára, tilnefnd fyrir golf. Svana hefur leitt kvennastarf Golfklúbbs Grindavíkur og skilað því einstaklega vel. Hún er drífandi og hvetjandi fyrir nýja meðlimi. Þá er hún einstök fyrirmynd kylfinga í Grindavík.

Sylvía Sól Magnúsdóttir, 19 ára, tilnefnd fyrir hestaíþróttir. Sylvía Sól er öflug íþróttakona innan vallar sem utan. Hún keppti í ungmennaflokki, opnum flokki og meistaraflokki og var í verðlaunasæti á nær öllum mótum sem hún keppti á. Sylvía Sól er í 16 sæti og 21 sæti á stöðulista yfir landið í fjórgangi og tölti. Með forkeppnum, A og B úrslitum telja keppnirnar 10 samtals. Sylvía Sól stundar nám á hestabraut í Fjölbrautaskólanum í Mosfellsbæ og starfar við tamningar og þjálfun. Hún fékk ekki tækifæri í ár til að verja Íslandsmeistaratitil sinn né keppa fyrir Íslands hönd þar sem stórum mótum var aflýst á þessu ári en Sylvía Sól var í byrjun árs valin í U-21 landsliðshóp Íslands af Landssambandi hestamanna. 

Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir, 23 ára, tilnefnd fyrir knattspyrnu. Þorbjörg Jóna spilaði stórt hlutverk í hjarta varnarinnar í liði Grindavíkur sem fagnaði sigri í 2. deild kvenna. Þorbjörg kemur frá Vopnafirði en hefur leikið með Grindavík undanfarin tvö tímabil. Hún lék 17 leiki með Grindavík í sumar í deild og bikar og skoraði 1 mark. Hún var fyrirliði í nokkrum leikjum í sumar og tók að sér stórt leiðtogahlutverk í liðinu. Þorbjörg var í stóru hlutverki í vörninni hjá Grindavík sem fékk fæst mörk á sig allra liða í 2. deild kvenna. 

TILNEFNINGAR TIL ÍÞRÓTTAMANNS GRINDAVÍKUR 2020
 

Jóhann Dagur Bjarnason, 18 ára, tilnefndur fyrir hjólreiðar. Jóhann Dagur hefur keppt í hjólreiðum síðustu 5 ár með góðum árangri. Hann varð íslands- og bikarmeistari í götuhjólreiðum, íslands- og bikarmeistari í tímatöku og bikarmeistari í criterum í junior flokki. Hann er góð fyrirmynd og hefur reynt mikið á sjálfsagann þar sem hann er einn að æfa í nágrenni Grindavíkur. Jóhann hefur aldrei snert áfengi eða tóbak og lætur alla svokallaða orkudrykki eiga sig. Hann stefnir á að keppa erlendis á næsta ári.

Matthías Örn Friðriksson, 34 ára, tilnefndur fyrir pílukast. Matthías Örn hefur haldið uppteknum hætti frá því hann kom inn í pílukastíþróttina með miklum krafti árið 2019. Hann er orðin besti pílukastarinn á landinu og vann íslandsmeistaratitilinn í 501 árið 2020. Matthías Örn hefur alltaf verið mikil fyrirmynd innan sem utan vallar, m.a. þegar hann spilaði knattspyrnu í efstu deild með Grindavík og er engin breyting á því í pílukastinu. Hann sýnir með góðu fordæmi hvernig á að ná árangri í því sem maður tekur sér fyrir hendur. Hann er góður fulltrúi íþróttarinnar á Íslandi bæði sem keppnismaður og ekki síður sem frumkvöðull í útsendingum á netinu sem og stjórnarmaður í bæði Íslenska Pílukastsambandi Íslands sem og Pílufélagi Grindavíkur.

Sigtryggur Arnar Björnsson, 27 ára, tilnefndur fyrir körfuknattleik. Arnar er lykilleikmaður í meistaraflokki karla og hefur verið undanfarin þrjú ár. Á árinu skoraði hann 17,8 stig að meðaltali í leik, tók 3,9 frákost, gaf 3,7 stoðsendingar sem setur hann í 13. sæti allra leikmanna í Dominsdeild karla. Arnar fór með liði Grindavíkur í úrslitum bikarkeppni KKÍ í febrúar auk þess að leika fjóra leiki með A-landsliði karla í undankeppni HM. Arnar er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur Grindavíkur og leggur mikið á sig við æfingar, mætir snemma og er tíður gestur í íþróttamiðstöðinni. Hann setur markmiðið hátt og leitast eftir að vera betri leikmaður í dag en í gær. Arnar stefnir á atvinnumennsku.

Sigurjón Rúnarsson, 20 ára, tilnefndur fyrir knattpyrnu. Sigurjón lék 19 leiki með karlaliði Grindavíkur í Lengjudeildinni og Mjólkurbikarnum í sumar. Hann skoraði tvö mörk í sumar og lék stórt hlutverk í hjarta varnarinnar hjá Grindavík. Sigurjón er tvítugur að aldri og var fyrirliði liðsins í nokkrum leikjum í sumar. Hann tók jafnt og þétt miklum framförum í sumar og lék sinn 50 leik fyrir Grindavík í deild og bikar í sumar. Sigurjón hefur verið valin í yngri landslið Íslands og á að baki 2 leiki með U19 ára liði Íslands. Grindavík hafnaði í 4. sæti í Lengjudeildinni í sumar.

Þór Ríkharðsson, 35 ára, tilnefndur fyrir golf. Þór varð klúbbmeistari Golfklúbbs Grindavíkur í sumar. 

Jóhann Þór Ólafsson, 35 ára, tilnefndur fyrir hestaíþróttir. Jóhann Þór er virkur félagsmaður og starfar í stjórn Brimfaxa. Hann er á öðru námsári hjá Landbúnaðarháskóla Íslands í reiðmanninum. Jóhann Þór er virkilega metnaðarfullur og leggur mikinn tíma í ástundun.

TILNEFNINGAR TIL ÞJÁLFARA GRINDAVÍKUR 2020
Nihad Cober og Anton Ingi Rúnarsson, tilnefndir fyrir knattspyrnu. Þeir Cober og Anton Ingi þjálfuðu lið UMFG í 5. flokki karla síðasta tímabil með undraverðum árangri. Liðið var Íslandsmeistari A-liða í 5. flokki sem er einstakur árangur. Þess má geta að 46 lið eru skráð í keppni A-liða landinu öllu. Fjöldi iðkenda er því mikill og samkeppnin hörð. Liðið tapaði aðeins einum leik í allt sumar og hafa Cober og Anton Ingi náð að kenna drengjunum mikið, enda er tæknin, samspilið og leikgleðin í fyrirrúmi hjá þeim. Árangur þeirra og drengjanna vakti landsathygli enda gerist það ekki oft að lið úr minni byggðarlögum á landsbyggðinni beri sigur úr býtum úr í Íslandsmóti A-liða. 


Ray Anthony Jónsson, tilnefndur fyrir knattspyrnu. Ray hefur þjálfað meistaraflokk kvenna undanfarin þrjú tímabil. Hann náði mjög góðum árangri með sitt unga lið í sumar og var hann valinn þjálfari ársins af fótbolta.net. Lið Grindavíkur stóð uppi sem sigurvegari í 2. deild kvenna og fór liðið beint upp í Lengjudeild kvenna. Þær töpuðu aðeins tveimur leikjum í sumar, fengu á sig fæst mörk allra liða og urðu þær deildarmeistarar í lok timabils. Margir leikmenn liðsins tóku jafnframt miklum framförum í sumar undir stjórn Ray sem er góður mælikvarði á árangur sumarsins.

TILNEFNING SEM LIÐ LIÐ GRINDAVÍKUR 2020
Meistaraflokkur kvenna í knattpyrnu. Kvennalið UMFG í meistaraflokki í knattspyrnu. Grindavík vann sigur í 2. deild kvenna í sumar og leikur því í Lengjudeildinni á næstu leiktíð. Liðið byrjaði tímabilið illa og tapaði snemma tveimur leikjum. Liðið snéri bökum saman og lék frábærlega það sem eftir lifði keppnistímabili og fagnaði að lokum sigri í deildinni. Liðið fékk á sig fæst mörk allra liða í deildinni sem sýnir vel liðsheildina innan liðsins. Frábær andi var innan liðsins og leikmenn tilbúnir til að vinna fyrir hvor aðra. Liðið sýndi og sannaði að með góðri liðsheild er hægt að ná frábærum árangri.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 30. nóvember 2021

Kaffihúsakvöld í Kvikunni

Grunnskólafréttir / 26. nóvember 2021

Upplýsingatćkni í 3.bekk

Fréttir / 23. nóvember 2021

Óskađ eftir frambođum í Ungmennaráđ

Fréttir / 16. nóvember 2021

Starfsfólk í heimaţjónustu

Höfnin / 22. nóvember 2021

Met afli hjá Tómasi Ţorvaldssyni GK-10.

Fréttir / 21. nóvember 2021

Lokanir á Leikskólanum Laut

Fréttir / 18. nóvember 2021

D vítamín: Sólskin í skammdeginu

Fréttir / 18. nóvember 2021

Grindavík međ liđ í Krakkakviss

Fréttir / 16. nóvember 2021

Pistill bćjarstjóra: Búseta og lífsskilyrđi

Grunnskólafréttir / 16. nóvember 2021

Dagur íslenskrar tungu