Kristín E. Pálsdóttir hlýtur Menningarverđlaun Grindavíkurbćjar 2020

  • Fréttir
  • 2. desember 2020

Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar voru afhent í gær við frekar óhefðbundnar aðstæður. Verðlaunin í ár hlaut Kristín E. Pálsdóttir fyrir framlag sitt til barnamenningar. 

Framlag Kristínar til barnamenningar í Grindavík er óumdeilt. Hún var alin upp á miklu menningarheimili þar sem móðir hennar vann með börnum, hvort sem það var að æfa söng eða mála leiktjöld. Vinna með börnum hefur verið ævistarf Kristínar allt frá því hún var 16 ára og fékk sumarstarf á gæsluvellinum. 

Kristín hefur gegnum tíðina fengið útrás í skapandi starfi með börnum eins og hún orðar það sjálf, hvort heldur þegar hún lék trúð á barnaskemmtunum í Festi, í starfi sínu á leikskólanum eða í barnastarfi kirkjunnar. Undanfarin ár hefur hún einnig staðið fyrir vinsælum smiðjum þar sem börn nýta efni í listsköpun sem annars væri hent. 

Við óskum Kristínu innilega til hamingju með viðurkenninguna. Um leið og við þökkum fyrir hennar framlag til menningarmála í Grindavík hlökkum við til að sjá hvað hún tekur sér næst fyrir hendur!

Verðlaun fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og/eða menningar

Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklings, stofnunar eða samtaka sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og/eða menningar. Hlutverk verðlaunanna er m.a. að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í sveitarfélaginu.

Eftirtaldir hafa fengið menningarverðlaun Grindavíkurbæjar:
2010 Saltfisksetur Íslands í Grindavík og Ómar Smári Ármannsson
2011 Aðalgeir og Kristinn Jóhannssynir
2012 Þorbjörn hf.
2013 Einar Lárusson
2014 Halldór Lárusson (bæjarlistamaður)
2015 Harpa Pálsdóttir
2016 Helga Kristjánsdóttir (bæjarlistamaður)
2017 Minja- og sögufélag Grindavíkur
2018 Anna Sigríður Sigurjónsdóttir (bæjarlistamaður)
2019 Halla María Svansdóttir
2020 Kristín E. Pálsdóttir

Hér tekur Kristín E. Pálsdóttir við verðlaununum frá Irmý Rós Þorsteinsdóttur, formanni frístunda- og menningarnefndar. 
 


Deildu ţessari frétt