Almannavarnarnefnd Grindavíkur fundaði í dag í kjölfar þeirrar jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall sem hófst rétt fyrir miðnætti í gær þegar skjálfti af stærðinni 5 varð 3 km norður af Fagradalsfjalli. Fulltrúi Veðurstofu Íslands mætti á fundinn til að fara yfir stöðuna.
Jarðvársérfræðingar Veðurstofu Íslands vinna að því greina gögn vegna þeirra skjálfta sem orðið hafa ásamt því að bíða eftir gervihnattamyndum af svæðinu. Von er á frekari upplýsingum frá Veðurstofunni á næstu dögum.
Í sögulegu samhengi þá varð svipaður atburður árið 1973 þar sem riðu yfir 5 skjálftar af stærðinni 4 og einn stærri en 5. Miðað við fyrirliggjandi gögn og í ljósi sögunnar þá er líklegast að jarðskjálftarnir haldi áfram næstu daga eða vikur og fjarri svo út án frekari atburðar.
Íbúar, ferðamenn og aðrir eru beðnir um að hafa varann á sér á ferðum sínum á svæðinu, t.d. í gönguferðum þar sem hætta gæti verið á grjóthruni og við hellaskoðun svo eitthvað sé nefnt.
Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Veðurstofu Íslands (www.vedur.is) ásamt því að staða mála er uppfærð reglulega á facebook-síðu Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.