Grindavíkurbær mun fljótlega hefja samtarf við Janus heilsueflingu um fjölþætta heilsueflingu fyrir 65 ára og eldri en skrifað var undir samning þess efnis við vígslu nýs íþróttahúss síðastliðinn sunnudag. Megin viðfangsefni verkefnisins er eflandi forvarnarstarf á sviði líkams- og heilsuræktar.
Grindavík er fjórða sveitarfélagið sem gengur til formlegs samstarfs við Janus heilsueflingu en Dr. Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur, hefur haft veg og vanda að starfseminni. Verkefnið, sem byggt er á doktorsverkefni Janusar, hefur skilað einstökum árangri í Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Vestmannaeyjabær hefur auk þess tekið upp heilsueflinguna og er þátttakan þar mjög mikil.
Megin viðfangsefni verkefnisins er heilsueflandi forvarnarstarf á sviði líkams- og heilsuræktar eldri aldurshópa. Markmiðið er m.a. að gera fólk hæfara til að takast á við breytingar sem fylgja hækkandi aldri.
Með markvissri þátttöku í þol- og styrktaræfingum auk ráðgjafar um holla næringu og aðra heilsueflandi þætti getur fólk spyrnt við fótum gegn öldrunar- einkennum samhliða því að bæta heilsu sína og lífsgæði. Þannig má færa líkur að því að viðkomandi geti sinnt athöfnum daglegum lífs lengur, búið lengur í sjálfstæðri búsetu og komið í veg fyrir of snemmbæra innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili. Þá má einnig gera ráð fyrir því að mikill sparnaður, bæði fyrir ríki og sveitarfélög, verði af heilsueflingar ferli af þessum toga þegar til lengri tíma er litið.
Nánari kynning á verkefninu mun fara fram á opnum fundi 1. mars næstkomandi sem verður haldinn í Gjánni. Hann verður auglýstur nánar þegar nær dregur. Í kjölfar kynningar og skráningu þátttakenda hefst verkefnið með heilsufarsmælingum sem endurteknar verða á 6 til 12 mánaða fresti meðan á heilsueflingarferlinu stendur.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í gærkvöldi í Miðgarði í Víðihlíð þegar Janús kynnti verkefnið fyrir Félagi eldri borgara í Grindavík.