Almannavarnarnefnd Grindavíkurbæjar og bæjaryfirvöld hafa átt góða og gagnlega fundi með viðbragðsaðilum svæðisins. Fundirnir hafa farið fram í húsnæði Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar. Þar hefur verið farið vandlega yfir málin en á fundina hafa einnig verið boðaðir fulltrúar fyrirtækjanna í Svartsengi; HS orku, HS veitum, Bláa Lónsins og Northern Light Inn.
Til umræðu hafa verið ýmis verkefni tengd jarðhræringum í Grindavík undanfarna daga. Það er óhætt að fullyrða að allir aðilar sem koma með einum eða öðrum hætti að þeirri viðbragðsáætlun sem gildir fyrir svæðið, séu búnir að leggja sig alla fram við að láta hlutina ganga upp.
Mikilvægt hefur verið að upplýsa sem flesta um stöðuna á vefsíðu bæjarins Hefur sérstökum borða verið komið þar fyrir þar sem nálgast má allar upplýsingar og fréttir tengdar landrisinu við Þorbjörn. Mikil vinna hefur verið lögð í að kortleggja svæðið ef til rýmingar kemur. Lögreglan á Suðurnesjum hefur farið í alla skólana í Grindavík en lagt er upp með að börn verði sótt í skólana.
Þess má geta að hver stofnun fyrir sig og hvert fyrirtæki hefur sína rýmingaráætlun þegar kemur að því að yfirgefa byggingar. Það mun síðan verða sent út sms til íbúa. Fyrst um að rýma þurfi og síðan hvaða leið skuli fara úr sveitarfélaginu.
Í undirbúningi er myndræn framsetning á því hvernig umferð verður háttað og hvaða leiðir skuli farnar. Það verður birt hér á heimasíðunni um leið og þær verða klárar.
Yfir 100 lögreglumenn eru starfandi hjá Lögregluembætti Suðurnesja og mikill mannskapur er einnig innan raða björgunarsveitanna sem er til þjónustu reiðubúinn eins og alltaf.
Fram hefur komið að líklegast er að þær jarðhræringar sem eiga sér stað núna leiði ekki til neins. Það er hins vegar gott og nauðsynlegt að búa sig undir það versta. Vinnan sem unnin hefur verið á mjög skömmum tíma er gríðarlega mikil og vönduð. Hún er jafnframt nauðsynleg.
Viðbragðsaðilarnir sem fundað hafa saman undanfarið eru Lögregluembættið á Suðurnesjunum. Almannavarnir ríkisins, Björgunarsveitin Þorbjörn auk Rauða krossins og slökkviliðs Grindavíkur.
Vefsíða bæjarins mun áfram birta fréttir af málunum um leið og þær berast.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundum viðbragðsaðila.