Portiđ: Persónuleg heilsurćkt og nudd

  • Fréttir
  • 30. desember 2019

Þær Erna Rún Magnúsdóttir og Kristín Heiða Ingvadóttir opnuðu nýlega persónulega heilsurækt og nuddstofur. Þær sameina krafta sína í nýjum húsakynnum neðst á Ægisgötunni en báðar eru þær nuddarar og einkaþjálfarar.  

Í lok október voru þær stöllur Kristín Heiða og Erna Rún heimsóttar í ný húsakynni, Portið. Þar eru þær bæði með nuddstofur og heilsurækt. Þær eiga ýmislegt sameiginlegt; eru báðar nuddarar og einkaþjálfarar. Þær urðu vinkonur í 
þjálfaranámi sínu og aðspurðar hvað hafi orðið til þess að þær fóru út í að opna starfssemi sína Portið segir Erna Rún að þær hafi ekki verið spenntar að fara að vinna sem einkaþjálfarar á einhverri annarri líkamsræktarstöð. Þeim hafi þótt sniðugt að geta sameinað bæði nuddið og þjálfunina. 

Húsnæðið datt upp í hendurnar á okkur
Erna Rún og Kristín Heiða segja að húsnæðið þeirra í dag hafi dottið upp í hendurnar á þeim.  Eigendur PVG gluggasmiðjunnar leigja þeim húsnæðið sem er gamla skrifstofuhúsnæði Fiskimjöls og lýsis. “Eftir að hafa skoðað húsnæðið fórum við heim og hugsuðum málið,” segir Erna Rún.  Kristínu leist svo vel á húsnæðið  að hún hringdi  í  Ernu Rún og sagðist ætla að stökka á þetta, hún væri velkomin að vera með ef hún vildi. 

Tóku allt sjálfar í gegn
„Við fengum lyklana í mars og í rauninni máttum við gera það sem við vildum“, segir Erna Rún. „Gísli var að breyta öllu sínum megin og við ákváðum líka bara að byrja. Mættum bara með sleggjuna og fórum að rífa niður veggi!“ segir Kristín. Þær hafi þó notið aðstoðar manna sinna, þeirra Óðins og Lalla. „Við rifum niður veggi, smíðuðum nýja, færðum til parket, máluðum, þetta var ótrúlega skemmtilegur tími“, segir Kristín. Erna Rún bætir við að þau hafi unnið allt sjálf nema að setja upp eldhúsinnréttinguna og flísaleggja sturtuklefann. Þær hafi síðan séð um að mála allt. 

Salurinn vinsæll til útleigu
Salinn leigja þær út bæði fyrir Zúmba og Jóga. Eins og staðan er í dag er salurinn orðinn þétt setinn. „Það er mjög góð nýting á salnum og við munum kannski bæta meiru við í þjálfun ef mikil eftirspurn verður.“ 

Allir geta byrjað að hreyfa sig
Erna Rún og Kristín   bjóða bæði upp á hádegistíma og einkaþjálfun. Þær benda á að allir geti byrjað að hreyfa sig. “Þrátt fyrir meiðsli og annað þá er gott að koma og fá ráðleggingar og byrja hægt,” segir Erna Rún. 

Áhersla á persónulega þjónustu og þjálfun
Þær leggja áherslu á persónulega þjónustu og vilja frekar vera með færri í tímum en fleiri til að geta leiðbeint og sinnt sínum hópi vel. Erna Rún segir að lykilatriðið sé að koma sér af stað. „Það þarf ekki að fara í brjálaðar lyftingar og Kristín bætir við að ekki sé heldur gott að byrja of geyst og fara of hratt í upphafi. Þær hvetja fólk til að hafa samband um hvað sé best að gera og hvernig best er að bera sig í upphafi. Hægt sé að finna hreyfingu sem hentar öllum sama í hvaða líkamlega formi fólk er. 


Viðtalið birtist í jólablaði Járngerðar sem má nálgast í heild sinni hér. 


Deildu ţessari frétt