Linda í Palóma: Vinsćlt ađ hópar mćti eftir lokun

  • Fréttir
  • 27. desember 2019

Linda María Gunnarsdóttir eða Linda í Palóma eins og flestir þekkja hana er orðin vinsæl langt út fyrir bæjarmörkin. Hingað koma hópar til að versla vandaðan fatnað en þökk sé tengdadóttur hennar Alexöndu Marý Hauksdóttur þá er Palóma mjög áberandi á samfélagsmiðlum auk þess sem í boði er að versla á netinu í gegnum paloma.is.

Linda María Gunnarsdóttir hefur rekið verslunina Palóma í þrettán ár en reksturinn keypti hún af Erlu Björgu Delbertsdóttur sem rak verslunina á undan henni. „Reksturinn gengur mjög vel, ekki síst eftir að Halla kom í verlsunarmiðstöðina. Hópar sem koma til mín sendi ég til Höllu og öfugt. Þannig að við höfum verið að vinna saman  þegar kemur að þessu, við hjálpum hvor annarri mjög mikið. Það er rosalega þægilegt að vera í svona pínu samstarfi.  Síðan opnuðum við vefsíðuna www.paloma.is og það gengur svakalega vel. 

Alexandra á heiðurinn af markaðssetningunni á netinu

Aðspurð af því hvort ekki gangi vel á samfélagsemiðlum segir Linda svo vera. „Alexandra tengdadóttir mín  á heiðurinn þar. Hún er að gera svakalega flotta hluti og ég get sko sagt það að þetta væri ekki svona flott og öflugt ef hún væri ekki þarna. Ef hún væri ekki svona öflug og svona sýnileg þá er ég ekkert viss um að það væri þetta flug á búðinni eins og það er í dag. Ég er svolítið af gamla skólanum og ég væri sennilega ekki komin með vefsíðu ef ég væri ekki með Alexöndu, það er bara þannig. Hún ýtti á mig í tvö ár áður en ég lét verða af því að fara á samfélagsmiðlana. 

Samstarf við áhrifavalda margborgaði sig
Palóma hefur notið aðstoðað svokallaðra áhrifavalda við að auglýsa vörur búðarinnar. Guðrún Veiga sem er betur þekkt sem gveiga var í stamstarfi við Palóma og segir Linda að það hafi margborgað sig. „Það var bara eitthvað annað. Við hugsuðum þetta sem langtíma fjárfestingu og við sendum henni kjóla og gallabuxur. Þann mánuð sem við nutum hennar þjónustu var salan sky high á netinu og svo líka fjölgaði heimsóknum á vefsíðuna okkar. Þetta var eiginlega alveg magnað,“ segir Linda.

Alls ekki allir eins ef keypt er í Grindavík 
„Fólk er oft fast í því að það sem maður kaupir í Grindavík að þá séu allir eins. Það er alls ekki þannig. Þú getur farið inn í stórar keðjur inn í Reykjavík þar sem seld eru fleiri þúsund stykki af sömu vörunni. Og auðvitað er hægt að lenda í því að einhver búð í Reykjavík sé að kaupa það sama og ég. Ég hef engan einkarétt á þessum merkjum og er að selja eins og aðrar búðir. Þó ég taki ekki nema 6 stykki af einhverri vöru þá getur  önnur búð tekið 100 stykki.“ 

Hópar koma eftir lokun
Mjög vinsælt er að hópar mæti í Palóma og oftar en ekki eftir lokun. Búðin er mjög vinsæl utan Grindavíkur líka og  ótrúlega mikið fer út úr Grindavík segir Linda.  Til að 
undirstrika vinsældir hjá Palóma í að taka á móti saumaklúbbum og öðrum hópum kemur Sirrý Erlingsdóttir starfsmaður hjá Lindu til hennar í miðju viðtali og spyr hvort hún geti tekið á móti saumaklúbb eftir lokun. Hún hélt það nú. 

Viðtalið birtist upphaflega í jólablaði Járngerðar sem nálgast má hér. 

 


Deildu ţessari frétt