Eins og við greindum frá í gær er Grindavík nú í 3. sæti á lista Vísbendingar yfir draumasveitarfélög á Íslandi. Við fögnum þessum árangri að sjálfsögðu en undanfarin ár höfum við verið að klifra hratt upp þennan lista. Frá 2006 er Grindavík sannkallaður hástökkvari á listanum en þá vorum við í 36. sæti með 2,9 stig en erum nú eins og áður sagði, í 3. sæti með 8 stig.
Við rýndum aðeins í tölurnar og forsendurnar sem liggja að baki þessum útreikningum og kemur þá ýmislegt forvitnilegt í ljós. Þeir þættir sem draga einkunn Grindavíkur niður eru nefnilega ekkert sérlega neikvæðir að okkar mati. Það sem við fáum mínus fyrir er: of lítil skuldsetning, of mikið handbært fé og of hröð íbúafjölgun! Séu þessir þættir skoðaðir útfrá íhaldssömum rekstrarviðmiðum er skiljanlegt að þeir lækki einkunnina en í raun eru þetta allt þættir sem við erum stolt af, og þá ekki síst skuldastaða sveitarfélagsins og ábyrg stjórnun fjármuna.
Til gamans má geta þess að eina leiðin fyrir Grindavík til að hækka einkunnina enn frekar er sú að eyða varasjóðnum okkar og taka lán, sem flestir eru sennilega sammála um að sé ekki fýsilegur kostur.
Forsendur draumasveitarfélags Vísbendingar.
1) Skattheimtan þarf að vera sem minnst. Sveitarfélög með
útsvarshlutfallið 12,44% fá 10 og sveitarfélög með hlutfallið
14,52% fá núll. Skalinn er í réttu hlutfalli þar á milli.
2) Breytingar á fjölda íbúa þurfa að vera hóflegar. Fjölgun á
bilinu 1,6 til 3,6% gefur 10 og frávik um 1% frá þessum
mörkum lækka einkunnina um einn heilan.
3) Afkoma sem hlutfall af tekjum á að vera sem næst
10%, sem gefur einkunnina 10. Dreginn er frá 1 fyrir hvert
prósentustig sem sveitarfélag er fyrir neðan 10% hlutfall.
Dreginn er hálfur frá fyrir hvert prósentustig yfir 10%.
4) Hlutfall skulda af tekjum sé sem næst 1,0. Frávik um
0,1 yfir þessu hlutfalli lækkar einkunnina um 1,0 frá einkunninni
10. Frávik um 1,0 fyrir neðan þetta hlutfall lækkar hana
um 0,5. Ef skuldir eru mjög litlar getur það bent til þess að
sveitarfélagið haldi að sér höndum við framkvæmdir.
5) Veltufjárhlutfall sé nálægt 1,0 (sem gefur 10) þannig að
sveitarfélagið hafi góða lausafjárstöðu en hafi ekki of mikla
peninga í lélegri ávöxtun. Frávik um 0,1 neðan við hlutfallið
gefur 1 í frádrátt. Frávik um 0,1 fyrir ofan hlutfallið gefur
0,5 í frádrátt. Hlutfall yfir 2,0 gefur einkunnina 5.
Allir þessi þættir gilda jafnt.