Í vikunni var töluvert öðruvísi kennslustund hjá nemendum í textílmennt í 3.bekk en þá var sameiginleg kennslustund með nemendum í Tékklandi. Í haust komu til okkar í heimsókn kennarar á vegum Erasmus og var kennslustundin sameiginleg með þeim nemendum.
Kennslustundin fór fram í gegnum fjarfundabúnað og gátu nemendur fylgst með í kennslustundum hjá hvor öðrum í gegnum skjá í skólastofunni. Í kennslustundinni voru nemendur okkar í Grunnskóla Grindavíkur að kenna félögum sínum í Tékklandi hvernig ætti að búa til draumafangara, sannarlega skemmtilegt verkefni sem Gerður Gunnlaugsdóttir, textílkennari, hélt utan um með dyggri aðstoð Ásdísar Kjartansdóttur deildarstjóra.
Á næstunni munu svo nemendurnir í Tékklandi sýna okkur verkefni frá þeim í gegnum fjarfundabúnað. Í vor eigum við von á kennurunum í heimsókn á nýjan leik. Hér fyrir neðan má sjá myndir frá kennslustundinni.