Dagana 19. og 20.október voru þemadagar í Grunnskóla Grindavíkur þar sem unnin voru ýmis verkefni tengd heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna sem og Barnasáttmálanum. Nemendur unnu fjölbreytt verkefni þar sem sköpunargleðin fékk oftar en ekki að njóta sín.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra.
Á heimasíðu Heimsmarkmiðanna má lesa nánar um markmiðin.
Hér í skólanum voru nokkur markmið valin til að vinna sérstaklega með. Markmið tengd fátækt, friði, hreinu vatni, forréttindum, mannréttindum og sjálfsmynd voru meðal þeirra sem unnið var með. Vinnan var fjölbreytt og fræðandi og var ekki annað að sjá en að nemendur hefðu bæði haft gagn og gaman af.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá þemadögunum í Hópsskóla.