Marine Collagen í Grindavík hefur hafið sölu á gelatíni

  • Höfnin
  • 30. desember 2020
Marine Collagen í Grindavík hefur hafið sölu á gelatíni

Marine Collagen í Grindavík hefur hafið sölu á gelatíni til erlendra aðila. Þetta kemur fram á vef Fiskifrétta en Jón Freyr Egilsson, framleiðslustjóri verksmiðjunnar sagði í samtali við vefinn vonast til þess að fullum afköstum verði náð á næsta ári.

Marine Collagen er í jafnri eigu sjávarútvegsfyrirtækjanna Þorbjörns, Vísis, Brims og Samherja auk þess sem spænski gelatínframleiðandinn Juncá Gelatines á hlut í fyrirtækinu. Fjárfesting þeirra nemur nú yfir einum milljarði króna. Fyrirtækið hefur hafið sölu á gelatíni til matvöruframleiðanda sem notar það til að líma saman afskurð úr kjöti og fiski.

„Við erum í raun og veru ennþá í tilraunaframleiðslu sem hófst í júní síðastliðnum. Við erum að ná tökum á ferlinu og þjálfa upp starfsmenn. Við erum ennþá að reka okkur á alls kyns tálma og erum að betrumbæta ferlið,“ segir Jón Freyr.

Lítið stóriðjuver

Undanfarið hefur spænskur verktaki unnið að lagnahönnun í verksmiðjunni og annarri uppsetningu. Hann er langt kominn með sína vinnu og býst Jón Freyr þá við því að verksmiðjan verði þá komin í endanlega mynd.

Ljóst þykir að húsnæðið í Bakkalág er ekki nægilega stórt fyrir verksmiðjuna. Fyrirtækið á lóð við hlið verksmiðjunnar og hugsanlegt er að byggt verði við hana á næstu misserum.

Tækjabúnaðurinn í verksmiðjunni er orkufrekur. Þar má nefna gufuketil sem getur framleitt 1.300 kg af gufu á klst og notar til þess eitt megavatt af rafmagni. Einnig er notað gríðarlega mikið magn af vatni við vinnsluna sem síðan er hreinsað í vatnshreinistöð áður en það er sent í fráveituna. Alls notar verksmiðjan 1,4 megavött af rafmagni og grafa þurfti fyrir sérstökum streng inn í húsið. Verksmiðjan er flókið og  tæknilegt mannvirki. Sé litið til orkunotkunar mætti tala um hana sem lítið stóriðjuver. Til samanburðar notar meðalstórt heimili 10-12 kWst á dag.

4.000 tonn af roði

Marine Collagen kaupir fiskroð af stærstu eigendunum og þegar hún verður komin í full afköst verður unnið gelatín og kollagen úr 4.000 tonnum af roði á ári. Út úr því er áætlað að komi um 400 tonn af afurðum. Jón Freyr segir að tilraunaniðurstöður gefi til kynna að hlutfall afurða úr hráefni verði enn hærra eða allt að 12%. Það muni annað hvort leiða til minni hráefniskaupa eða meiri framleiðslu. Enn sem komið er eru innkaup á roði takmörkuð enda framleiðslan ennþá á tilraunastigi. Roðið kemur ísað í fiskikörum og er ferskt þegar framleiðslan hefst.

Vinnsla úr öðrum tegundum skoðuð

Eigendur hafa lagt mikla fjármuni í uppbyggingu verksmiðjunnar og samstarf þeirra er að mörgu leyti einstakt og ber vott um framsýni og vilja til fullnýtingar á auðlindinni. Jón Freyr segir að þetta fyrirkomulag hafi spurst víða út sem lýsir sér í miklum áhuga væntanlegra kaupenda víðs vegar um heiminn bæði á gelatíni og kollageni frá verksmiðjunni.

Það sem skipti sköpum í rekstri verksmiðju af þessu tagi er stöðugt framboð af hráefni. Með samstarfi þessara stóru sjávarútvegsfyrirtæki er sá þáttur að mestu leyti tryggður í rekstri verksmiðjunnar. Jón Freyr segir að dugi framboðið frá þessum fjórum ekki framleiðslunni verði keypt af öðrum innlendum fiskframleiðendum.

Ekki hefur verið samið um hráefnisverð fyrir verksmiðjuna. Vinnslurnar hafa fram til þessa selt roðið til fóðurframleiðenda. Samherji hefur líka selt sitt roð til kollagenframleiðanda í Kanada. Íslenska líftæknifyrirtækið Kerecis hefur notað roð í framleiðslu á plástrum. Jón Freyr sér ekki fyrir sér að slegist verði um roðið en verði önnur sambærileg verksmiðja sett upp gæti staðan orðið önnur. Það gæti jafnframt leitt til verðhækkana á roði.

„Það er ekki heldur útilokað að við skoðum framleiðslu úr öðrum fisktegundum, eins og til dæmis karfa eða makríl. Það er kollagen í öllum húðum. En það sem vinnur með okkur er hve sterkt vörumerkið þorskurinn er út um allan heim. En síðasta eina og hálfa árið hefur markmiðið verið að koma framleiðslunni í gang og þangað stefnum við öruggum skrefum,“ segir Jón Freyr.

Fyrirspurnir eftir margfaldri framleiðslu

„Þær fyrirspurnir sem okkur hafa þegar borist eru eftir margföldu bolmagni okkar í framleiðslu. Við erum því mjög bjartsýnir á söluna framundan. Í söluteymi okkar eru tveir menn frá Juncá Gelatines sem hafa mikla tengingu inn á markaði fyrir gelatín og kollagen.“

Marine Collagen er ekki eitt um að framleiða þessar afurðir úr fiskroði. Slík framleiðsla fer einnig fram í Kanada og Frakklandi. Einnig er framleitt töluvert úr eldisfiski, t.a.m. í Asíu. En það er ekki sama vara og gelatín úr roði af villtum kaldsjávarfiski sem Jón Freyr segir hafa aðra eiginleika.

Til þess að vinna kollagen í verksmiðjunni verður gelatínið meðhöndlað með ensímum. Vonir stóðu til að kollagenframleiðslan gæti hafist í síðasta mánuði. Verð á gelatíni og kollageni er svipað en nú um mundir er heimsmarkaður fyrir kollagen stærri. Gelatín er að mestu notað til matvælaframleiðslu en kollagen í heilsu- og snyrtivörur. Marine Collagen hefur verið í viðræðum við lyfjafyrirtæki um sölu á sinni framleiðslu.

Umfjöllunin birtist fyrst í Tímariti Fiskifrétta 19. nóvember sl.

Mynd eftst: Jón Freyr Egilsson, framleiðslustjóri Marine Collagen fer yfir ferlið á vinnslu gelatíns og kollagens þegar sendiherra Kína heimsótti verksmiðjuna á síðasta ári. 


Deildu þessari frétt

Nýjustu fréttir

Túnfiskur í voðina

  • Höfnin
  • 14. september 2022

Ölduduflið komið á sinn stað

  • Höfnin
  • 20. janúar 2022

Jólakveðja Grindavíkurhafnar

  • Höfnin
  • 23. desember 2021

Öldumælingaduflið slitnaði upp

  • Höfnin
  • 13. janúar 2022

Landanir í október

  • Höfnin
  • 3. nóvember 2021

Landaður afli í september

  • Höfnin
  • 3. október 2021

Landaður afli í ágúst 2021

  • Höfnin
  • 20. september 2021