Sævar Helgi Bragason, stundum betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, mun heimsækja bókasafn Grindavíkur í kvöld og fræða okkur um himingeiminn. Sævar kom líka til okkar á bókasafnið í fyrra og þá var fullt út úr dyrum og allir fóru heim með margvíslega nýja þekkingu í farteskinu. Í fyrirlestrinum nú ætlar hann að fjalla um stjörnuhimininn, velta því fyrir sér hvað sést fyrir ofan okkur, hann fjallar um stærð stjarnanna og hve langt í burtu þær eru ásamt mörgu öðru skemmtilegu og fróðlegu. Allir þeir sem eru forvitnir um óravíddir himingeimsins láta sig ekki vanta á þennan spennandi fyrirlestur og kynningu. Ef veður leyfir verður kannski hægt að setja upp sjónaukann hans Sævars Helga og virða fyrir sér öll þau undur sem bíða okkar þegar við skoðum himingeiminn.
Sævar Helgi er með B.Sc. – gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands auk þess að vera formaður stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og ritstjóri Stjörnufræðivefsins og geimurinn.is. Hann er kennari í Háskóla unga fólksins, Háskólalestinni og Vísindasmiðju Háskóla Íslands auk þess sem hann kennir í framhaldsskólum.